23. desember 2025
23. desember 2025
Innleiðing breytinga á svæfingadeildum Landspítala
Undanfarið ár hefur staðið yfir umfangsmikið breytinga- og samræmingarverkefni á svæfingadeildum Landspítala. Markmiðið er að tryggja að starfsfólk geti unnið óháð staðsetningu með sömu vinnuaðstöðu, sama búnað og sama verklag – sem er öryggismál þegar starfsfólk fer á milli deilda en mun einnig skipta miklu máli þegar deildirnar verða sameinaðar í nýjum meðferðakjarna. Eitt af þessum verkefnum var að samræma svæfingaborð á svæfingadeildunum í báðum húsum og er því verkefni að ljúka um þessar mundir.

Í svæfingaborðum eru lyf, tæki og búnaður fyrir loftvegaaðstoð og vökvagjafir. Þau eru kjarnabúnaður í allri svæfingavinnu, bæði hjá svæfingalæknum og -hjúkrunarfræðingum.
Svæfingaborð eru kjarnabúnaður í allri svæfingavinnu, bæði hjá svæfingahjúkrunarfræðingum og svæfingalæknum. Í þeim eru lyf, tæki og búnaður fyrir loftvegaaðstoð og vökvagjafir.
Svæfingalæknar, sérnámslæknar og sérnámshjúkrunarfræðingar sem unnu í báðum húsum höfðu vakið máls á því að alltaf færi tími í að aðlagast nýjum stað þar sem vinnuaðstaðan væri ólík. Á hinn bóginn var talað um að sökum mismunandi vinnuaðstæðna, aðgerða og verkefna væri eðlilegt að aðstaðan væri ólík. Rökin voru bæði með og á móti breytingum.
Stórt verkefni unnið í góðri samvinnu
Unnið var markvisst og í góðri samráðs- og kynningarvinnu til að tryggja sem breiðasta sátt. Fyrsta verkefnið var að lyfjahluti svæfingaborðanna var samræmdur og hluti borðanna gerður eins á öllum stöðum. Samtals var unnið með 28 svæfingaborð og jafn margar svæfingavélar á skurðstofum og útstöðvum, þar á meðal á æðaþræðingu, röntgen og speglun.
Eftir að klínískur sérfræðingur í svæfingahjúkrun tók við verkefninu í nóvember 2024 hófst vinna við síðustu samræmingarverkefnin tengd þessum breytingum. Í apríl sátu stjórnendur, sérfræðingar og aðrir starfsmenn sem höfðu komið að verkefninu, fund þar sem farið var yfir framhald og mögulegar breytingar.
Eitt mikilvægasta skrefið var að gera breytingar á staðsetningu búnaðar til loftvegameðferðar í Fossvogi og samræma við Hringbraut. Nú eru þessir íhlutir í svæfingaborðunum á báðum stöðum. Rökin voru bæði hagnýt og öryggistengd; á Hringbraut hafði verið erfitt að nálgast skúffur svæfingavéla en auk þess væru svæfingavélar á leið í útboð og ekki vitað hvort eða hve margar skúffur yrðu í nýjum vélum.
Innleiðing í Fossvogi
Viðtökur voru mismunandi í Fossvogi. Sumum fannst nýja fyrirkomulagið óæskilegt, þar sem þau voru vön að hafa allan loftvegatengdan búnað í svæfingavélinni. Aðrir tóku breytingunum opnum örmum.
Í maí var eitt svæfingaborð gert að sýningarborði þannig að starfsfólk gæti skoðað, aðlagast og myndað sér skoðun á breytingunum. Í júlí hafði öllum svæfingaborðum á skurðstofugangi á fjórðu hæð í Fossvogi verið breytt og verkefnahópurinn skráði allar athugasemdir. Í september voru öll svæfingaborð á skurðstofum í Fossvogi orðin samræmd.
Starfsfólk hefur sýnt skilning á mikilvægi þess að samræmi sé á milli deildanna hvað viðkemur svæfingavélum og svæfingaborðum. Um er að ræða mikið öryggisatriði fyrir það starfsfólk sem fer á milli húsa. Athugasemdir bárust um að vinnuaðstaðan hefði orðið snyrtilegri og aðgengilegri við breytingarnar.
Innleiðing á Hringbraut
Kynning fór fram á Hringbraut í lok október og starfsfólk fékk ítarlegar upplýsingar í framhaldinu. Breytingarnar áttu sér stað í byrjun nóvember og gengu vel. Þó að þær væru ekki eins miklar og í Fossvogi þurfti að færa til búnað og skipta um skúffur. Viðtökur voru almennt mjög jákvæðar og starfsfólk hvatt til að skrá athugasemdir. Farið verður yfir þær með stjórnendum í janúar.
Sterk teymisvinna skilar árangri
Verkefnið hefur verið unnið í öflugri samvinnu fjölda starfsmanna og stjórnenda. Teymið hefur sýnt mikla fagmennsku, lausnamiðaða nálgun og þolinmæði í gegnum allt ferlið.
Samræming svæfingaborða er mikilvægur áfangi í undirbúningi fyrir flutning í nýjan meðferðakjarna og styrkir bæði öryggi og skilvirkni starfsfólks, óháð því á hvaða deild eða í hvaða húsi það vinnur.