Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

9. desember 2009

Þessi frétt er meira en árs gömul

Innbrot og þjófnaðir

Fimm innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Tvö fyrirtæki í Breiðholti urðu fyrir barðinu á innbrotsþjófum en einhverju af peningum var stolið úr öðru þeirra. Þjófur var líka á ferðinni í húsi í Grafarholti og hafði tekið til ýmsa muni þegar að honum kom styggð en kauði fór tómhentur af vettvangi. Í Garðabæ var brotist inn í vinnuskúr en ekki er ljóst hvort einhverju var stolið. Þá var sjónauki tekinn úr bíl í miðborginni.

Hnuplmál komu sömuleiðis á borð lögreglunnar í gær en kona um fimmtugt var tekin fyrir að stela snyrtivörum í verslun í Kringlunni. Í annarri verslun í borginni var kona á sjötugsaldri líka gripin glóðvolg við vafasama iðju en sú hafði tekið nokkuð af jólaskrauti ófrjálsri hendi. Og í Hafnarfirði var dekkjaþjófur á kreiki en bíll í bænum var tjakkaður upp og undan honum tekið eitt dekk. Þjófnaðurinn uppgötvaðist þegar eigandi bílsins kom grunlaus á vettvang, settist í ökumannssætið og hugðist aka bílnum. Eins og við var að búast komst hann ekki langt.