3. janúar 2008
3. janúar 2008
Þessi frétt er meira en árs gömul
Innbrot og þjófnaðir
Nokkur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Kæliskáp var stolið úr geymslu í Kópavogi og skiptimynt var tekin úr söluturni í Breiðholti. Þjófar voru líka á ferðinni á Völlunum í Hafnarfirði en þar var brotist inn í nýbyggingu en ekki er ljóst hverju var stolið. Þá var farið inn í tvo bíla í Norðlingaholti. Verkfæri voru tekin úr öðrum en geislaspilari úr hinum.
Matvælum var stolið úr verslun í Hlíðunum og komst þjófurinn undan með feng sinn. Karl á fimmtugsaldri var gripinn í fyrirtæki í Hafnarfirði en sá var með áfengisflösku og bjórdósir innanklæða og hugðist yfirgefa staðinn án þess að greiða fyrir veigarnar.