11. maí 2007
11. maí 2007
Þessi frétt er meira en árs gömul
Innbrot og þjófnaðir
Nokkur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Teppi var stolið úr húsi í miðborginni og í sama hverfi hurfu ýmis tæki og tól úr öðru húsi en á báðum stöðum standa yfir endurbætur á húsnæði. Veski og geisladiskar voru tekin úr bíl í austurborginni og í Kópavogi stálu þjófar peningakassa frá fyrirtæki. Litlir fjármunir voru í peningakassanum.
Nokkuð ber á því að reiðhjólum er stolið í umdæminu þessa dagana en þrjár slíkar tilkynningar bárust lögreglunni í gær. Rétt er að hvetja fólk til að vera á varðbergi hvað þetta varðar. Sú ábending á raunar við um fleiri hluti því fátt virðist fá að vera í friði fyrir óprúttnum aðilum. T.a.m var barnavagni stolið úr fjölbýlishúsi í gær en tjónið er auðvitað mjög bagalegt, líkt og í öðrum þeim málum sem hér hafa verið nefnd.