30. janúar 2024
30. janúar 2024
Hvað gera heilbrigðisgagnafræðingar?
Við Sjúkrahúsið á Akureyri starfa um 30 heilbrigðisgagnafræðingar. Áður var starfsheitið læknaritari en undanfarna áratugi hefur starfið tekið stakkaskiptum með netvæðingu en einnig vegna tilkomu stafrænna kerfa fyrir sjúkragögn, skráningu upplýsinga og skjalastjórnun. Til að öðlast starfsleyfi sem heilbrigðisgagnafræðingur frá Embætti landlæknis þarf að klára grunndiplómu á háskólastigi.
Heilbrigðisgagnafræðingar búa yfir mikilli sérþekkingu á lögum varðandi skjalastjórnun, persónuupplýsingum og upplýsingaöryggi, réttindum sjúklinga og starfsfólks auk alþjóðlegra gæðastaðla. Það má með sanni segja að án heilbrigðisgagnafræðinga væri hryggjastykkið tekið úr starfsemi heilbrigðiskerfisins.
„Sértækasta þekking okkar og kunnátta snýr að kóðun og flokkun sjúkdóma, einkenna og kvilla og tilheyrandi aðgerða og meðferða. Allt er þetta kóðað eftir ákveðnum alþjóðlegum stöðlum og flokkunarkerfum þar sem hver sjúkdómur, einkenni, kvilli, aðgerðir og meðferðir eiga sér eigin kóða innan flokkunarkerfisins. Þessir kóðar gera það að verkum að greiningar eru samkvæmt alþjóðlegum staðli og eru eins milli stofnana,“ segir Veronika Rut Hjartardóttir, formaður Félags heilbrigðisgagnafræðinga og starfandi heilbrigðisgagnafræðingur á myndgreiningardeild SAk.
Heilbrigðisgagnafræðingar á SAk starfa þvert á allar deildir en tilheyra þó öll Miðstöð heilbrigðisgagnafræðinga (áður læknaritaramiðstöð). Heilbrigðisgagnafræðingar voru í lykilhlutverki við innleiðingu DRG – þjónustutengd fjármögnun sem hófst í byrjun árs 2020. Samkvæmt skilgreiningu DRG þurfa skráningar, sjúkdómsgreininga og / eða meðferðir að vera skráðar m.t.t. DRG flokkunnar í sjúkraskrá. Við útskriftir af legudeildum og öllum komum á dag-, göngu- og bráðadeildir þarf framangreint að vera fyrirliggjandi og miða við læknisfræðilegt ástand sjúklings og veitta meðferð. Frá innleiðingunni hefur grettistaki verið lyft hvað varðar þessar skráningar og kóðunar. Til glöggvunar er hægt að nefna 350 ófrágengnar legur árið 2021 sem fóru niður í 24 árið 2022.
Starf heilbrigðisgagnafræðinga á sannarlega eftir að þróast mikið á næstu árum en mikilvægi þessarar stéttar innan heilbrigðiskerfisins er óumdeilanlegt. Heilbrigðisgagnafræðingar munu áfram gegna lykilhlutverki varðandi utanumhald heilbrigðisgagna, skipulag kennslu annarra heilbrigðisstétta í notkun rafrænna sjúkraskráarkerfa ásamt því að koma fleiri verkefnum tengdum gagnavinnslu og vistun í góðan farveg í framtíðinni.
Nafn: Veronika Rut Hjartardóttir
Starfsheiti: Heilbrigðisgagnafræðingur
Fæðingarár: 1990
Hvaðan ertu: Akureyri
Menntun: Kvikmyndagerð, fjölmiðlafræðingur og heilbrigðisgagnafræðingur
Hversu lengi hefurðu unnið á SAk: Næstum 3 ár
Áhugamál: Listir, samfélagsmál, góðar bækur, kvikmyndir og þættir
Hvað varstu í fyrra lífi: Planta sem lifði á sólarljósi á sumrin og lagðist í dvala á veturna
Sturluð staðreynd: Ég er með 10 cm plötu og 8 skrúfur í ökklanum eftir brot og aðgerð í Kambódíu
Hvernig lítur hefðbundinn vinnudagur út hjá þér á SAk: Útfylling eyðublaða í Sögu, vinnsla svara í RIS, vottorð, afhending á sjúkragögnum utan stofnunar í samræmi við lög, samskipti við sjúklinga / tryggingastofnanir / lögfræðistofur, tímabókanir, augnlækna, skrif dikteringa, HNE lækna, miðlun tilvísana og beiðna, umsjón biðlista hjá augnlæknum, kóðun viðeigandi eyðublaða, utanumhald viðeigandi skjala, samskipti við lækna, geislafræðinga og tilfallandi starfsfólk deilda og fleira tilfallandi.
Hvað er skemmtilegast í vinnunni: Félagsskapurinn
Hvað er mest krefjandi í vinnunni: Vinnuálagið
Ef þú mættir breyta einhverju í vinnunni, hvað væri það: Efla fræðslu til allra stétta, finna leiðir til að létta á vinnuálagi
Eitthvað að lokum? Lífsspeki? Pissaðu áður en naglalakkið fer á neglurnar.