22. mars 2024
22. mars 2024
Hundrað þúsund hektarar frá 2017
Bændablaðið ræddi nýlega við Gústav Magnús Ásbjörnsson, sviðstjóra endurheimtar vistkerfa hjá Landi og skógi. Þar kemur meðal annars fram að nú séu um fjögur hundruð bændur virkir í landgræðsluverkefnum með stofnuninni. Gústav segir tengslin og þekkinguna sem hafi orðið til í verkefninu Bændur græða landið vera til hagsbóta fyrir allt landgræðslustarf.
Í upphafi greinarinnar, sem Steinunn Ásmundsdóttir blaðamaður skrifar, kemur fram tólf hundruð landeigendur hafa komið að verkefninu Bændur græða landið frá upphafi, fyrir rúmum þrjátíu árum, og nú eru um fjögur hundruð þátttakendur virkir.
Gústav segir í viðtalinu við Steinunni frá þeim verkefnum Lands og skógar sem tengjast landgræðslu hjá bændum. Grunnstefið sé að veita bændum og öðrum landeigendum aðstoð við að bæta ástand lands í umsjá þeirra og endurheimta vistkerfi sem veiti fjölbreytta þjónustu.
Formlegt samstarf við bændur um landgræðslu hófst með verkefninu Bændur græða landið árið 1990 og þar er unnið á heimalöndum bænda. Land og skógur veitir þar bæði ráðgjöf og styrki. Í kjölfarið hafa komið verkefni eins og Landbótasjóður, Endurheimt votlendis, Varnir gegn landbroti og verkefni sem snúa að landnýtingu, endurheimt birkivistkerfa og fleira. Svæðin sem unnið hefur verið á undir verkefninu Bændur græða landið eru orðin 37 þúsund hektarar að stærð og alls er stærð svæða sem unnið hefur verið á innan samstarfsverkefna með beinum hætti frá 2017 ríflega 100 þúsund hektarar, að sögn Gústavs.
Haft er eftir Gústav að betur mætti ganga að fá landeigendur til liðs við að endurheimta votlendi enda sé það eitt mikilvægasta verkefnið í loftslagsmálum. Í viðtalinu er rætt um þróun verkefnanna, svo sem með aukinni notkun á lífrænum áburði. Einnig sé verið að taka upp viðurkennt SER-verklag við endurheimt vistkerfa.
Nánar um þetta og ýmislegt fleira í viðtalinu við Gústav Magnús Ásbjörnsson, sviðstjóra hjá Landi og skógi, sem birtist í Bændablaðinu 7. mars á blaðsíðu 28.