Fara beint í efnið

26. október 2020

Hönnunarkerfi Ísland.is

Undanfarin misseri hefur orðið mikil vitundarvakning um mikilvægi hönnunar. Leiðandi fyrirtæki um allan heim, á ýmsum sviðum, róa nú öllum árum að því að tileinka sér hugmyndir og aðferðafræði hönnunar í störfum sínum og í því hvernig þau nálgast viðskiptavini sína. Opinberar stofnanir eru ekki undanskildar þessari þróun, enda er ávinningurinn af góðri hönnun í grundvallaratriðum sá sami og fyrir fyrirtæki á markaði.

Hönnunarkerfi - verkefnasaga

Íslendingar þurfa jú að nýta sér þjónustu hins opinbera, og eftir því sem þjónustan færist meira yfir í stafræna miðla gegnir hönnun sífellt mikilvægara hlutverki. Framtíðarsýn ríkisins er að Ísland verði í fremstu röð ríkja á heimsvísu í stafrænni þjónustu, og að samskipti einstaklinga og fyrirtækja við hið opinbera verði að megninu til stafræn. Góð hönnun auðveldar aðgengi að þjónustunni, eykur skilvirkni hennar og stuðlar að jákvæðri upplifun notenda.

Verkefnið framundan

Það að stafvæða þjónustu íslenska ríkisins er ærið verkefni og krefst þess að margar hendur vinni saman, hratt og örugglega, og það skiptir máli að hugsa stórt frá upphafi. Þess vegna var ákveðið snemma í ferlinu að setja upp hönnunarkerfi fyrir Stafrænt Ísland, sem yrði grunnurinn að hinu ört vaxandi þjónustuframboði ríkisins á Ísland.is. Hönnunarkerfinu er ætlað að tryggja samræmi í allri þjónustu, hjálpa hinum fjölmörgu teymum sem koma að vinnunni að komast hratt af stað í nýjum verkefnum, og ekki síst að auðvelda viðhald og rekstur þjónustunnar til framtíðar.

Hönnunarkerfi - verkefnasaga - 2

Í stuttu máli er hönnunarkerfi samansafn endurnýtanlegra viðmótseininga auk leiðbeininga um hvernig þær eru notaðar. Hægt væri að líkja þessu við kubbasett sem hönnuðirnir nota til að raða saman og smíða allt sem viðkemur stafrænni opinberri þjónustu, frá einföldum upplýsingasíðum til flókinna sjálfsafgreiðsluferla. Við notum hönnunarapparat sem heitir Figma, en þar geta hönnuðir unnið saman að verkefnum og notað viðmótseiningar úr einu miðlægu safni.

Prinsipp

Þó að kerfið sé í grunninn þetta samansafn viðmótseininga, þá eru einingarnar sjálfar ekki nema yfirborðið á heildarferlinu og hugsuninni þar að baki. Eitt af verkefnunum sem tengjast útgáfu kerfisins er að súmmera upp þau prinsipp sem liggja til grundvallar allri hönnun fyrir Ísland.is. Þau eiga að skerpa á heildarsýninni fyrir verkefnið, styðja við ákvarðanatöku í ferlinu og vera einskonar leiðarljós fyrir okkur sem komum að því að skapa stafræna framtíð íslenska ríkisins.

Þessari vinnu er ekki lokið, en hér er vísir að nokkrum:

  • Við viljum að hönnun sé skýr, einföld og aðlaðandi

  • Þarfir notenda vega þyngra en þarfir stofnana, þjónustuaðila eða okkar sem komum að verkefninu

  • Við reynum ávallt að vera mannleg og vinaleg, og höfum samkennd í fyrirrúmi

  • Við hönnum af ásetningi, í raunverulegu samhengi og látum efnið ráða ferðinni

  • Við höldum samræmi í viðmóti og notkun og hugsum alltaf um heildina

  • Við notum margreynd hönnunarmynstur, gerum prófanir með reglubundnum hætti og tökum ákvarðanir sem byggja á gögnum og prinsippum.

Í tengslum við þessi prinsipp hefur mikið verið rætt um svokallaða Mobile First aðferðafræði, sem snýst um að hugsa viðmótið og notendaflæðið fyrst út frá notkun í snjallsímum. Gögn um umferð á vef Ísland.is sýna stóraukna snjallsímanotkun, en þetta er þróun sem er í örum vexti um allan heim. Við munum því leggja áherslu á að þjónustuhönnun taki mið af þessu og að öll hönnun fyrir Stafrænt Ísland taki mið af þessari aðferðafræði eins og kostur er.

Hönnunarkerfi - verkefnasaga - 4

Vörumerki verður að heildstæðu kerfi

Þegar við hófum vinnu við hönnunarkerfið fengum við í hendurnar splunkunýtt vörumerki fyrir Ísland.is frá auglýsingastofunni Brandenburg. Þar höfðum við merki, litapallettu, leturgerð og vísi að heildarútliti sem við byggðum á til að teikna upp viðmót og ásýnd stafrænnar þjónustu Ísland.is.

Við reynum eftir fremsta megni að endurspegla vörumerkið í viðmótinu sjálfu, en aðgengiskröfur setja okkur þó skilyrði í litanotkun og sérstaklega þegar kemur að lit á texta. Innan þess ramma viljum við nota litina til að gera viðmótið skýrara, með aðgreiningu á mismunandi hlutum þess, og sömuleiðis líflegra og meira aðlaðandi. En til að fara skrefinu lengra í því fengum við til liðs við okkur myndskreytinn Viktoríu Buzukina, sem skapaði fyrir okkur myndheim sem gæðir viðmótið lífi og býr til sterka heildarmynd á vörumerkið. Teikningarnar gegna mikilvægu hlutverki í að ná fram þessu hlýlega og mannlega í viðmótinu sem skiptir svo miklu máli í stafrænni þjónustu.

Hönnunarkerfi - verkefnasaga - 5

Það mætti segja að hryggjarstykkið í hönnunarkerfinu sé týpógrafían; letrið og leturnotkunin, en að baki henni liggja miklar spekúlasjónir. Læsileiki er að sjálfsögðu í fyrirrúmi, en þar spilar inn í leturgerðin sjálf og atriði eins og línulengdir og bil, stærðir og skýr stigskipting (e. hierarchy) svo eitthvað sé nefnt. Letrið sem við notum heitir IBM Plex sem er alveg einstaklega gott aflestrar, auk þess sem það er opinn hugbúnaður og fellur því vel að stefnu Stafræns Íslands um að nýta opinn hugbúnað sé þess kostur.

Til að gæta samræmis á milli hönnunar og þróunar, forritunarhluta kerfisins, ákváðum við að færa hönnunarkerfið alveg yfir á ensku. Það eru mörg og fjölbreytt teymi sem koma að vinnu við Ísland.is og hönnuðir og forritarar sem eru enskumælandi, en auk þess er þróunarumhverfið allt á ensku og erfitt að halda góðu samræmi á milli ef við notum ekki sama tungumál til að lýsa einingum kerfisins sem flæða þarna á milli. Leiðbeiningar fyrir hönnuði eru því allar á ensku og inni í Figma, þar sem einingarnar sjálfar eiga heima. Ætlunin er svo að halda úti síðu á íslensku og ensku með yfirliti yfir hönnunarkerfið og aðferðafræðina og prinsippin sem liggja því til grundvallar, sem verður ætluð öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið hvort sem viðkomandi kemur að vinnu við Stafrænt Ísland eða ekki.

Ánægjuleg samskipti

Ávinningurinn af því að vera með hönnunarkerfi er margskonar, fyrir bæði notendur og þjónustuaðila. Ég sem borgari og notandi get gengið að því vísu að þegar ég þarf að nýta mér þjónustu hins opinbera, þá taki á móti mér sama viðmót og virkni sem ég þekki og hef lært að nota. Upplifunin er sú að þjónustan sé öll á sama staðnum þó hún tengist mismunandi stofnunum, en með því að bjóða upp á heildstæða upplifun byggjum við upp traust á milli ríkis og borgara.

Ávinningurinn fyrir ríkið og þá sem koma að þróun fyrir stafræna þjónustu hins opinbera er meðal annars að hönnunarkerfið auðveldar yfirsýn og viðhald til framtíðar. Kerfið hefur áhrif á alla verkferla og ýtir undir það að hugsað sé um heildarsamhengið þegar verið er að þróa nýjar þjónustur, að hver og ein þeirra sé hluti af stærri heild og þurfi að byggja á sama grunni. Og eins og nefnt var hér í upphafi gerir hönnunarkerfið teymum kleift að komast hratt af stað með ný verkefni; notkun kerfisins styttir þróunartímann til muna og gerir það að verkum að ríkið getur brugðist hratt við þörfum og aðstæðum sem koma upp. Í samanburði við hina gömlu, þunglamalegu ásýnd opinberrar þjónustu getur ríkið farið að virka meira eins og létt og lipurt nýsköpunarfyrirtæki.

Hönnunarkerfið gegnir því lykilhlutverki á stafrænni vegferð íslenska ríkisins, og mun auðvelda aðgengi fólks að opinberri þjónustu og gera samskiptin ánægjuleg — sem er jú það sem skiptir mestu máli þegar upp er staðið.

Opið öllum

Nú hefur fyrsta útgáfa hönnunarkerfisins litið dagsins ljós og fyrir þá sem vilja róta aðeins í kubbakassanum er kerfið aðgengilegt öllum hér á Figma. Forritunarhluti kerfisins er einnig opinn öllum á ui.devland.is, þar sem hægt er að skoða tilbúnar einingar og sjá hvernig allt virkar.

Að verkefninu komu hönnuðir og forritarar frá Kosmos & Kaos, með aðstoð frá Aranja og Hugsmiðjunni.