6. september 2024
6. september 2024
Hjúkrunarfræðin er mín ástríða
HSU í Vestmannaeyjum // Iðunn Dísa Jóhannesdóttir, deildarstjóri hjúkrunar á heilsugæslu
Iðunn Dísa Jóhannesdóttir er deildarstjóri hjúkrunar á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum. Iðunn fæddist 9. október 1961 í Eyjum og er alin þar upp. Hún starfaði hjá Ísfélagi Vestmannaeyja í fjórtán ár eftir framhaldsskólanám, fyrst í fiskvinnslu og seinna sem launagjaldkeri. Árið 1995 hóf Iðunn svo störf á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja sem síðar varð Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Þar var hún fyrst á sjúkradeild sem sjúkraliði og seinna sem hjúkrunarfræðingur eftir fjarnám við Háskólann á Akureyri. Hún hefur verið á heilsugæslunni undanfarin fjögur ár, en þar eru sjö stöðugildi hjúkrunarfræðinga og þrjú stöðugildi sjúkraliða.
ÓGLEYMANLEG JAPANSFERÐ
Iðunn er gift Ágústi Einarssyni rafvirkja. „Við höfum gengið saman lífsins veg frá því við vorum 16 og 17 ára gömul og áttum 40 ára brúðkaupsafmæli núna 1. september. Við eigum tvö börn, tvö tengdabörn og barnabörnin eru fimm. Að auki eigum við einn langömmu og -afastrák og annar er á leiðinni. Aðspurð um áhugamálin segir Iðunn golfið eiga hug hennar allan í augnablikinu. „En ég lifi fyrir að hreyfa mig og finnst gaman að hafa líkamsræktina fjölbreytta. Fátt er einnig betra en dýrmætar stundir með fjölskyldu og góðum vinum. Ferðalög hafa verið stór þáttur í lífinu og nú síðast fórum við í ógleymanlega ferð til Japans."
„HÉR VIL ÉG BÚA"
Iðunn fer fögrum orðum um heimabæinn. „Hérna eru stuttar vegalengdir og hér er falleg náttúra. Golfvöllurinn er einn sá besti á landinu, veitingastaðirnir frábærir og verslanirnar fallegar. Hér býr gott fólk og samfélagið er gott. Hérna ólst ég upp og hérna á ég systkyni, börn, barnabörn, tengdafólk og vini. Hér vil ég vera og hér vil ég búa."
ELSKAR FAGIÐ
„Hjúkrunarfræðin er mín ástríða. Ég elska að vinna sem hjúkrunarfræðingur og áður sem sjúkraliði. Starfið er bæði fjölbreytt og skemmtilegt þótt auðvitað geti það tekið á, en það er svo miklu sjaldgæfara en hitt. Ég varð barnung móðir og fékk þá innsýn inn starfið þegar ég lá á sjúkrahúsi og fannst það virkilega áhugavert þó að það tæki mig síðan um 20 ár að fara inn á þá braut."
BESTA VIÐ VINNUSTAÐINN
En hvað er það besta við vinnustaðinn? „Samstarfsfólkið er dásamlegt, starfsandinn góður og það einkennir vinnustaðinn að þar eru allir samtaka í að gera sitt besta. Við þurfum oft að leysa úr flóknum málum hérna í Eyjum þar sem ekki er um aðra heilbrigðisstofnun að ræða og við erum stolt af þessu háa þjónustustigi, en það skapar stundum óvenjulega mikið álag á HSU í Eyjum. Ég held að það skýrist af því hversu einangrað samfélagið er og hversu stopular samgöngur geta verið, sérstaklega yfir vetrartímann."
NÁNAR UM STARFIÐ
„Í starfi mínu sem deildarstjóri er það í mínum verkahring að halda utan um starfsemina og skipulagið. Starfið felur einnig í sér fundasetur, yfirfara reikninga og tölvusamskipti ásamt ótalmörgum öðrum verkefnum sem eru bæði fjölbreytt og skemmtileg eins og t. d að vinna í móttökunni. Starfsfólk heilsugæslunnar skiptum með sér mörgum verkefnum; Má þar nefna umsjón lyfjabúrs, pantanir á lyfjum og vörum, heimahjúkrun og heimahjúkrunarumsjón, eftirlit með Dignio, sem er eftirlitskerfi skjólastæðinga út í bæ og að framkvæma Rai-möt, bæði upphafs- og framhaldsmöt. Heilsugæslan er jafnframt með ungbarnavernd, skólahjúkrun og sykursýkismóttöku til að nefna fátt eitt. Við erum líka með ljósmóður innan okkar starfshóps á heilsugæslunni sem kemur sér mjög vel."
TALSVERT ÁLAG
„Eftir daglegan morgunfund skiptum við með okkur verkum og sumt starfsfólk fer að sinna heimahjúkrun meðan önnur fara fram í móttöku eða sinna síma og móttöku. Það er glettilega mikið álag á símanum, en við erum að hringja allt upp í 60 til 80 símtöl á dag. Hjúkrunarmóttakan er sömuleiðis afskaplega annasöm. Ef slys eða mikil veikindi koma upp, þá sér flýtimóttakan um slík verkefni með aðstoð allra á stöð ef á þarf að halda. Mikilvægt er að allir sem leita til okkar hringi á undan sér. Það er gert til að reyna að stytta biðtíma skjólstæðinga okkar. Ef ástand skapast á stöðinni vegna óvæntra veikind eða sjúkrabíla sem koma lengist þessi bið stundum. Móttökuritarar tilheyra minni starfseiningu ásamt hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum og ég reyni ég að hitta þær daglega. Þær eru andlit stofnunarinnar og gegna ekki síður mikilvægu starfi á heilsugæslunni. Mér finnst mikilvægt að við sem störfum hér vinnum öll í sátt og samlyndi. Rödd allra skipti máli í skipulagi og framkvæmd."
NÝJUNGAR FRAMUNDAN
Við spyrjum Iðunni um nýja hluti framundan eða á sjóndeildarhringnum í vinnunni. „Það stendur til að byrja með heilsueflandi móttöku í vetur, sem er mjög spennandi verkefni og felur í sér öflugt forvarnarstarf. Það væri jafnframt gagnlegt að hafa dagdeild á heilsugæslunni til að sjá um Monofer- og Venofer-gjafir. Enn fremur hefur verið áætlað að símaþjónustan í 1700 komi okkur til aðstoðar, en það hefur reynst vel á öðrum starfsstöðvum. Til að nefna eitthvað í lokin, þá langar okkur líka til að bjóða upp á fastan tíma í blóðþrýstingsmælingar."