15. ágúst 2017
15. ágúst 2017
Þessi frétt er meira en árs gömul
Helstu verkefni vikuna 8. til 14. ágúst 2017.
Vikan var með rólegra móti hjá lögreglu fyrir utan töluverðan eril í kringum flokkun og afhendingu óskilamuna eftir Þjóðhátíðina. Minna var um óskilamuni í ár en undanfarin ár og hefur lögreglan enga skýringu á því.
Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og engin teljanleg vandræði í kringum öldurhúsin. Töluverður fjöldi fólks var samankomin á Básaskersbryggju á laugardagskvöldið við komu Herjólfs en með skipinu voru nýkrýndir Bikarmeistara ÍBV í knattspyrnu sl. Fóru hátíðarhöld vel fram en einhverjir fögnuðu titlinum fram eftir nóttu. Lögreglan í Vestmannaeyjum óskar ÍBV til hamingju með titilinn.
Tvö slys voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku. Í öðru tilvikinu hafði barn slasast á gæsluvellinum v/Miðstræti þegar róla sem barnið var að leika sér í slitnaði. Ekki var um alvarlega áverka að ræða. Í hinu tilvikinu hafði barn dottið á reiðhjóli og fann til eymsla í hné eftir fallið. Í báðum tilvikum voru börnin flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.