Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

12. september 2016

Þessi frétt er meira en árs gömul

Helstu verkefni lögreglunnar á Suðurlandi vikuna 6. til 12. september 2016

Afskipti voru höfð af ökumanni fólksbifreiðar í Hveragerði síðdegis á miðvikudag vegna gruns um að hann væri undir áhrifum fíkniefna. Með honum í bifreiðinni var karlmaður sem hafði í fórum sínum hvítt duft og kannabis í því magni að grunur lék á að hann væri að selja fíkniefni. Maðurinn reyndist vera á reynslulausn. Hann var handtekinn og færður til yfirheyrslu. Lögreglustjóri gerði kröfu til Héraðsdóms Suðurlands um að manninum yrði gert að afplána eftirstöðvar óafplánaðrar fangelsisrefsingar. Dómari hafnaði kröfunni á þeim forsendum að lögreglu hefði ekki tekist að færa sönnur á að maðurinn hafi verið að selja fíkniefni.

Auk þessa máls komu upp tvö önnur fíkniefnamál upp. Annað í Hveragerði og hitt á Selfossi. Hvoru tveggja minni háttar neyslumál sem voru afgreidd með yfirheyrslum.

Snemma á sunnudagsmorgun var óskað eftir aðstoð lögreglu í hús í Árnessýslu vegna líkamsárásar. Um minni háttar árás var að ræða. Árásarmaðurinn var nokkuð ölvaður. Hann var handtekinn og færður í fangageymslu. Maðurinn var látinn laus eftir yfirheyrslu.

Ökumaður torfæruhjóls missti stjórn á hjóli sínu á vegslóða í Folaldadölum fyrir hádegi á laugardag. Folaldadalir eru norðan við Nesjavallaveg þar sem hann fer um Dyradal. Talið er að ökumaðurinn hafi viðbeinsbrotnað.

Um þrjúleytið á föstudag varð harður fjögurra bíla árekstur á Skeiðarárbrú. Engin slys urðu á fólki en þrjú ökutækjanna voru óökufær eftir. Mikil bílaröð myndaðist beggja megin brúarinnar á meðan verið var að vinna að rannsókn og að fjarlægja ökutækin.

Bifreið valt á Hagavegi skammt frá Mosfelli í Grímsnesi um klukkan 17 á föstudag. Einn maður var í bifreiðinni og komst af sjálfsdáðum út úr henni nokkuð lemstraður en óbrotinn. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til frekari skoðunnar. Bifreiðin var talsvert skemmd eftir veltuna.

Ellefu ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í síðustu viku. Einn þeirra, sem ók á 128 kílómetra hraða var að auki ölvaður. Fimm voru kærðir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Fjórar bifreiðar voru teknar úr umferð vegna þess að vátrygging var útrunnin. Við því liggur 30 þúsund króna sekt.