Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

29. febrúar 2016

Þessi frétt er meira en árs gömul

Helstu verkefni lögreglunnar á Suðurlandi vikuna 23. til 29. febrúar 2016

Í síðustu viku voru 38 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur. Lögreglumenn á Kirkjubæjarklaustri kærðu 13 þeirra á Suðurlandsvegi fyrir vestan og austan Klaustur. Tólf þeirra voru erlendir ökumenn. Tveir mældust á 149 km hraða á klukkustund. Einn á 142, annar á 136 og aðrir ekki þar langt frá.

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir fíkniefnaakstur.

Karlmaður var handtekinn á Hellu á miðvikudagskvöld vegna meints brots á nálgunarbanni. Hann var í haldi lögreglu á meðan frumrannsókn fór fram. Maðurinn var látinn laus eftir yfirheyrslu daginn eftir.

Klukkan 15:26 var tilkynnt um eld í sánaklefa í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn. Lögreglumenn sem komu á staðinn slökktu glóð í klefanum með handslökkvitæki. Slökkvilið sá um að reykhreinsa. Engin hætta var á ferðum og tjón minni háttar.

Eldur kom upp í bíl inni á verkstæði við Gagnheiði á Selfossi síðastliðinn þriðjudag. Verið var að rafsjóða í yfirbyggingu bílsins þegar eldurinn kom upp. Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu fór á vettvang en eigandi bílsins náði að slökkva eldinn.

Aðfaranótt laugardags var brotist inn geymsluskúr við veitingastaðinn Hestakrána á Húsatóftum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og þaðan stolið bjórkassa og einhverju meira af áfengi. Brotist var inn í skúrinn með því að spenna upp hurð. Nokkuð tjón hlaust af því. Sá eða þeir sem voru að verki eru ófundnir.

Brotist var inn í Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum á föstudagsmorgun og þaðan stolið skiptimynt. Öryggiskerfi fór af stað kl. 07:25 og þegar öryggisvörður kom á staðinn var búið að brjóta rúðu á vesturhlið Þjónustumiðstöðvarinnar. Þjófnaðurinn er óupplýstur og engar vísbendingar um hver var að verki.

Um helgina var tilkynnt um innbrot í tvo sumarbústaði við Apavatn. Litlu var stolið en tjón hlaust af innbrotunum. Loki af heitum potti við sumarbústað í landi Böðmóðsstaða var stolið.

Á þriðjudag var tilkynnt um innbrot í kjallara íbúð við Eyrarbraut á Stokkseyri. Innbrotið hefur átt sér stað á tímabilinu frá 16. til 23. febrúar síðastliðinn. Eigandi saknar nokkurra DeWalt verkfæra. Innbrotsþjófurinn var búinn að róta til og kasta hlutum úr hillum og skápum niður á gólf.

Tíu umferðaróhöpp voru skráð í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi í síðustu viku. Engin slys á fólki því tengdu.

Í síðustu viku var nokkuð um beinbrot. Stúlka handleggsbrotnaði á fimleikaæfingu í Þorlákshöfn. Belgísk kona rann til í hálku á göngustíg sem liggur frá Víkurskála niður að fjöru. Hún úlnliðsbrotnaði. Erlend kona hrasaði við Geysi og handleggsbrotnaði.

Aðfaranótt laugardags var lögreglan kölluð í hesthúsahverfið á Selfossi vegna 15 til 20 ungmenna sem þar slógust í hóp. Þegar lögreglan kom á staðinn voru slagsmálin afstaðin og fækkað í hópnum. Tveir ungir karlmenn voru sárir eftir en þó með minni háttar áverka. Formleg kæra liggur ekki fyrir en málið er í rannsókn.