Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

17. október 2016

Þessi frétt er meira en árs gömul

Helstu verkefni lögreglunnar á Suðurlandi vikuna 11. til 17. október 2016.

Alvarlegt umferðarslys varð á Suðurlandsvegi skammt austan við Hvolsvöll um klukkan 14 síðastliðinn miðvikudag. Erlendur ökumaður jepplings var þar í framúrakstri við slæm veðurskilyrði er bifreið hans lenti á dráttarvél sem á sama tíma þveraði veginn. Dráttarvélin fór á hliðina. Farþegi í jepplingnum öklabrotnaði, síðar kom í ljós við læknisskoðun á heilsugæslustöðinni á Selfossi að ökumaðurinn var með innvortis blæðingu. Honum var ekið með forgangi á slysadeild Landspítala í Fossvogi þar sem hann gekkst þegar í stað undir aðgerð og mátti ekki tæpara standa með að veita manninum lífsbjörg. Hann er nú á batavegi.

Níu þjófnaðir voru kærðir í vikunni. Í tveimur tilvikum var um að ræða hnupl í verslunum á Selfossi og í einu tilviki tók maður eldsneyti á bíl á Hellu og hvarf á braut án þess að greiða fyrir. Brotist var inn í sumarbústað í Svínahlíð við Þingvallavatn og Sogsveg í Grímsnesi og þaðan stolið fartölvu. Fjórum sjö strengja vírnetsrúllum og tveimur gaddavírsrúllum var stolið þar sem þær voru í vegkannti um 100 metrum frá Skeiðavegamótum. Ef einhver getur veitt upplýsingar um þessar rúllur þá er hægt að koma þeim á framfæri á sudurland@logreglan.is eða í síma 444 2000.

Eldur kom upp í reykkofa, sem var á milli tveggja hesthúsa í hesthúsahverfi á Stokkseyri, síðastliðið föstudagskvöld. Slökkvilið Brunavarnaárnessýslu kom á vettvang og slökkti eldinn. Ekki varð annað tjón en á reykkofanum.