Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

27. desember 2021

Þessi frétt er meira en árs gömul

Helstu verkefni liðinnar viku á Suðurlandi 20. til 26 desember 21

4 umferðarslys voru tilkynnt á tímabilinu frá 15:20 til 17:38 þann 20.12 s.l. Fyrst var bílvelta á Þjórsárdalsvegi þar sem meiðsl á ökumanni bifreiðar sem valt voru minniháttar. Kl. 16:45 valt bifreið út af Biskupstungnabraut. Ökumaður einn í bílnum og taldi sig ekki þurfa flutning með sjúkrabifreið af vettvangi. Kl. 16:54 valt bifreið á Eyrabakkavegi og í henni par með tvö börn. Þau flutt til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun en ekki talin alvarlega slösuð. Loks varð árekstur tveggja bifreiða á Suðurlandsvegi í Flóa þar sem saman rákust jeppi og jepplingur sem ekið var úr gagnstæðum áttum. Ökumaður einn í jepplingnum sem valt og endaði á hvolfi úti í vatnsfylltum skurði. Hann aðstoðaður af vegfarendum út úr bílnum og er ekki alvarlega slasaður. Ökumaður jeppabifreiðarinnar fastklemmdur, alvarlega slasaður, í braki bílsins utan vegar og þurfti tækjabúnað slökkviliðs Brunavarna Árnessýslu til að losa hann. Farþegi í sama bíl slapp lítið meiddur. Svo virðist sem ökumaður jepplingsins hafi verið að aka fram úr röð bifreiða og ekki náð að ljúka framúrakstrinum og því lent framan á jeppanum. Tjón varð á a.m.k. tveimur bílum öðrum vegna braks sem þeyttist frá bifreiðunum sem í árekstrinum lentu.

Þá brotnaði fullorðin kona á hendi þegar bifreið sem ekið var á bifreiðastæði aftan við Ráðhús Árborgar á Selfossi rakst á hana. Hún flutt til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun.

Ökumaður sem lögreglumenn stöðvuðu á Selfossi þann 26. desember s.l. á Eyravegi á Selfossi vegna vöntunar á skráningarnúmeri aftan á bifreiðina reyndist bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Að auki sviptur ökurétti vegna fyrri brota.

Annar aðili sem tilkynnt var um á Suðurlandsvegi þann 22.12 eftir að tilkynnt hafði verið um undarlegt aksturslag hans reyndist ölvaður og stúlka sem stöðvuð var í reglubundnu eftirliti á Selfossi þann 20.12 er grunuð um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.

6 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt. Af þeim 4 í Rangárþingi.

Ökumaður vöruflutningabifreiðar sem stöðvuð var þann 21.12. á Suðurlandsvegi við Reykjavík reyndist með útrunnin ökuréttindi. Bifreiðin kyrrsett og honum gert að útvega bílstjóra með gild réttindi. Annar ökumaður stöðvaður á vörubifreið á sama stað reyndist án ökumannskorts og fær kæru fyrir það. Þá sætir rekstraraðili einnig kæru vegna brotsins.

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu var kallað til þegar eldur kom upp í kertaskreytingu í íbúðarhúsi á Selfossi aðfaranótt 21.12 Íbúar hússins höfðu vaknað við flaut reykskynjara og náðu að slökkva sjálf eldinn en nokkurt tjón varð af reyk í íbúðinni. Fólki varð ekki meint af.

Eldur kom upp í íbúðarhúsnæði í fjölbýli á Höfn að kvöldi 23.12 Snarráður starfsmaður félagsþjónustu varð eldsins var og slökkti eldinn með því að bera vatn á hann en eldurinn var í gardínu sem fallið hafði niður í rúm. Ekki kom til þess að slökkvilið væri kallað til og tjón var minniháttar. Húsráðandi var hinsvegar fluttur á sjúkrastofnun til aðhlynningar.