Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

13. desember 2017

Þessi frétt er meira en árs gömul

Helstu verkefni lögreglunnar á Austurlandi 28. nóvember til 11. desember.

157 mál eru skráð hjá lögreglunni á Austurlandi á þessu tímabili. Nokkrir ökumenn voru aðstoðaðir á Fjarðarheiði vegna óveðurs. Útafakstur varð á Norðausturvegi rétt ofan við Brunahvamm. Bifreiðin skemmdist talsvert en engin slys urðu á fólki. Þá fór bifreið út af hringveginum á móts við Dalsá í Fáskrúðsfirði. Ökumaður bifreiðarinnar kvaðst hafa séð kyrrstæða ljóslausa bifreið á veginum framundan og sveigði framhjá til að forðast árekstur með framangreindum afleiðingum. Nokkrir vegfarendur voru aðstoðaðir vegna óveðurs víðar í umdæminu. Nokkur önnur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu en sem betur fer engin slys á fólki.

Einn ökumaður var handtekinn á Fáskrúðsfirði grunaður um að aka bifreið undir áhrifum fíkniefna, jafnframt er viðkomandi sviptur ökuréttindum. Annar ökumaður er grunaður um nytjastuld ökutækis og að hafa ekið bifreið sviptur ökuréttindum á Breiðdalsvík. Þá var ökumaður handtekinn á Egilsstöðum vegna gruns um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Ein líkamsárás var tilkynnt lögreglu á Egilsstöðum og er til rannsóknar.

Lögreglan varar vegfarendur sérstaklega við slæmum aðstæðum á nýja veginum frá gangnamuna í Fannardal að Skálateigi, djúpar holur eru í víða veginum sem geta valdið eignatjóni og umferðaróhöppum.