24. apríl 2024
24. apríl 2024
Helmingur umsókna hjá Þórkötlu samþykktur fyrir vikulok
Stjórn Þórkötlu hefur nú samþykkt kaup á 263 fasteignum í Grindavík og hafa eigendur viðkomandi fasteigna fengið staðfestingu þess efnis.
Stjórn Þórkötlu hefur nú samþykkt kaup á 263 fasteignum í Grindavík og hafa eigendur viðkomandi fasteigna fengið staðfestingu þess efnis. Samþykktar umsóknir hafa verið sendar í kaupsamningsgerð sem getur tekið allt að tíu virka daga.
Heildarfjárhæð viðskipta sem stjórn Þórkötlu hefur samþykkt nemur um 20 milljörðum króna. Stefnt er að því að samþykkja kaup á 100 eignum til viðbótar í vikunni og verður þá búið að samþykkja ríflega helming allra umsókna sem borist hafa Þórkötlu. Alls hafa 732 umsóknir borist.
Samningum við lánveitendur lauk endanlega um helgina sem gerir Þórkötlu kleift að afgreiða fleiri mál en áður. Reynt er að láta ferlið ganga hratt fyrir sig en þó er viðbúið að upp komi mál sem þurfi að skoða betur og það muni þá taki lengri tíma að ganga frá þeim kaupum. Sem dæmi má nefna að í einhverjum tilfellum hefur brunabótamat eigna hækkað verulega frá því í nóvember sem krefst þá nánari skoðunar. Þá eru dæmi um að fasteignir séu skráðar ókláraðar og hafi ekki fengið lokaúttekt þó fjöldi ára sé liðinn frá byggingu þeirra.
Frágangur kaupa Þórkötlu á eignum í Grindavík hefur farið fram með rafrænum hætti, með rafrænum kaupsamningi og rafrænni þinglýsingu. Um þrjátíu manns koma að störfum félagsins með einhverjum hætti en verkefnið er unnið í samvinnu nokkurra stofnana.
„Við erum að taka við þessum eignum Grindvíkinga núna en markmiðið er að þeir sem vilja geti keypt þær tilbaka síðar. Fyrri eigendur geta keypt þær á sömu kjörum eða 95% af brunabótamati líkt og reglugerð kveður á um. Þá erum við að gera ráð fyrir að fólk geti leigt þær af okkur í millitíðinni. Við vonumst til að eiga gott samstarf við samfélagið um þessi atriði.“ segir Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri félagsins.