23. júní 2025
23. júní 2025
Heimsráðstefna um líknarmeðferð – mikilvægar áskoranir og jákvæð þróun í Evrópu
„Listen, listen, listen! Let the patient tell their story.“ Með þessum orðum hófst 19. heimsráðstefna um líknarmeðferð sem haldin var í Helsinki, Finnlandi í maí 2025. Þetta eru orð dr. Robert Twycross, eins virtasta sérfræðings heims á sviði verkja- og líkamsmeðferðar sem lést í október 2024.

Hjúkrunarfræðingar Heimahlynningar á Akureyri voru meðal þátttakenda
Fulltrúar frá Íslandi tóku þátt í ráðstefnunni, þar á meðal allir hjúkrunarfræðingar Heimahlynningar á Akureyri. Þar fengum við tækifæri til að hlýða á fjölbreytt erindi og fræðast um stöðu og þróun líknarmeðferðar á alþjóðavettvangi.
Ójöfnuður í aðgengi að líknarmeðferð
Ein umfjöllun ráðstefnunnar sneri að miklum ójöfnuði í aðgengi að líknarmeðferðaþjónustu milli landa. Þó að meðferðir, þekking og verkjalyf séu víða aðgengileg eru margir einstaklingar í heiminum, þar á meðal í sumum Evrópulöndum, án þeirrar líknar sem þeir þurfa á að halda. Á sumum svæðum eru lífnauðsynleg lyf einfaldlega ekki fáanleg eða leyfð, sem veldur óþarfa þjáningu.
Uppbygging þjónustu við krefjandi aðstæður
Dr. Daniela Mosoiu frá Rúmeníu lýsti hvernig hún og hennar teymi hafa byggt upp líknarmeðferðarþjónustu þar í landi, frá grunni og með miklum áskorunum. Hún lagði áherslu á að þjónustan verði að taka mið af menningarlegum gildum, aðstæðum og samfélagslegum þörfum hvers lands og mikilvægi þess að nýta þau úrræði sem eru þegar til staðar á hverjum stað með hagkvæmum og aðlögunarhæfum hætti.
Alþjóðleg áhrif og nýtt hlutverk hjá WHO
Dr. Julie Ling hjúkrunarfræðingur, sem gegnt hefur lykilhlutverki í þróun líknarmeðferðar í Evrópu, stýrði European Association for Palliative Care (EAPC) í nær áratug. Hún hefur nú tekið við starfi sem tæknilegur ráðgjafi í líknarmeðferð hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) í Evrópu. Hún hefur haft mikil áhrif á stefnumótun og þróun líknarmeðferðar á alþjóðavísu og talaði á ráðstefnunni um mikilvægi þverfaglegrar samvinnu, rannsókna og menntunar í faginu.
Yfirlit yfir þróun og áskoranir – Atlas of Palliative Care in Europe 2025
Í nýjustu útgáfu Atlas of Palliative Care in Europe 2025, kemur fram að yfir 7000 sérhæfðar líknarmeðferðarþjónustur starfi nú í Evrópu, sem markar um 10% aukningu frá árinu 2019. Skýrslan sýnir jákvæða þróun, en dregur einnig fram eftirfarandi lykiláskoranir:
Meira en helmingur Evrópulanda kennir ekki líknarmeðferð á háskólastigi fyrir heilbrigðisstarfsfólk
Aðgengi að nauðsynlegum verkjalyfjum er mjög ójafnt eftir löndum og búsetu
Aðeins 15 lönd í Evrópu – um fjórðungur – hafa uppfært stefnu sína í líknarmeðferð á síðustu fimm árum
Helstu lærdómar af ráðstefnunni
Af ráðstefnunni má draga nokkur mikilvæg meginatriði:
Líknarmeðferð þarf að vera órjúfanlegur hluti heilbrigðiskerfisins og aðgengileg öllum, óháð búsetu eða efnahag
Menntun á háskólastigi er grundvöllur aukinnar fagþekkingar og tryggir gæði þjónustunnar
Ný útgáfa
Atlas of Palliative Care in Europe
sýnir jákvæða þróun en krefst áframhaldandi umbóta
Enn er mikill ójöfnuður í aðgengi að líknarmeðferð og verkjalyfjum eftir búsetu og löndum
Þverfagleg og alþjóðleg samvinna er grundvöllur árangurs
Efla þarf umræðu um meðferðarsamtal (Advanced Care Planning) og hefja það fyrr í sjúkdómsferli einstaklinga
Í siðfræðihluta ráðstefnunnar kom fram mikilvægi þess að virða ólíka menningarheima í fjölþjóðlegum samfélögum og vinna gegn kynþáttafordómum og mismunun
Sterk staða líknarmeðferðar á Akureyri
Þrátt fyrir þessar áskoranir á alþjóðavísu er ánægjulegt að segja frá því að líknarmeðferð á Akureyri er í góðum farvegi. Við búum yfir vel menntuðu starfsfólki sem til samans myndar öflugt teymi fagfólks með djúpa þekkingu og víðtæka reynslu. Faglegt starf er unnið af heilindum, nærgætni og virðingu fyrir einstaklingum og aðstandendum þeirra á viðkæmum tímum.
Lokaorð
„Við lok lífs er það ekki bara það sem við segjum heldur líka hvernig við tengjumst sem skiptir sköpum. Tími, skilningur og skýrleiki eru ekki aukaatriði, þau eru brúin að líknarmeðferð.”
– Robert Staeck