8. október 2025
8. október 2025
Heimsókn frá Grænlandi
Í lok september mánaðar fékk veiðieftirlit Fiskistofu góðan gest frá Grænlandi.

Arnar, Jannik og Óli Þór með einn af drónum Fiskistofu
Jannik Holm, svæðisstjóri hjá systurstofnun Fiskistofu í Nuuk, Grønlands Fiskeri- og Jagtkontrol, tók þátt í drónaeftirliti með Arnari og Óla Þór, starfsmönnum veiðieftirlits Fiskistofu á Akureyri, og hafði á orði að þeir væru „toppmenn með mikla þekkingu“.
Jannik dvaldi á Íslandi í nokkra daga og heimsótti meðal annars starfstöð Fiskistofu í Hafnarfirði. Þar fór hann í vettvangseftirlit með Sigurði Birgi eftirlitsmanni.
Að heimsókn lokinni hélt hann til Austur-Grænlands til frekari starfa en gerði stuttan viðkomustað á Íslandi á heimleið, þar sem ekki er í boði beint flug frá Austur-Grænlandi til Nuuk.
Heimsóknir sem þessar skipta miklu máli fyrir að viðhalda nánu samstarfi og traustum tengslum milli systurstofnana á sviði eftirlits og fiskveiðistjórnunar á norðurhveli. Þær skapa einnig mikilvægan vettvang fyrir miðlun gagnkvæmrar þekkingar og reynslu sem styrkir starf beggja aðila til framtíðar.