7. mars 2024
7. mars 2024
Hagþenkir verðlaunar rit um moldina
Ólafur Gestur Arnalds prófessor hlaut í gær viðurkenningu Hagþenkis 2024 fyrir bókina Mold ert þú - jarðvegur og íslensk náttúra. Um hönnun bókarinnar sá Fífa Jónsdóttir, grafískur hönnuður og sérfræðingur í vísindamiðlun hjá Landi og skógi.
Viðurkenninguna veitti formaður Hagþenkis, Gunnar Þór Bjarnason við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í Reykjavík í gær, 6. mars. Viðurkenningin er áritað heiðursskjal og peningaupphæð upp á 1.500 þúsund krónur.
Í ávarpi sem Ólafur flutti við þetta tækifæri sagði hann bókina eiga sér langa forsögu. Ritun hennar hefði hafist fyrir meira en aldarfjórðungi. Hann hefði vantað aðgengilegt lesefni fyrir nemendur sína í jarðvegsfræði við Háskóla Íslands á þeim tíma. Síðan lýsti Ólafur því hvernig efnið hefði aukist og þróast. Ólafur fór til starfa við Landbúnaðarháskóla Íslands og hefur um árabil verið prófessor við skólann. Með tímanum segir hann að áherslan í ritun bókarinnar hafi vaxið á að tengja moldina við umhverfisþætti og stöðu vistkerfa. „Í Mold ert þú er fókusinn á náttúru landsins og umhverfismál – auk einlægs vilja til að gera bókina sem allra aðgengilegasta fyrir áhugafólk um náttúrufræði,“ sagði Ólafur orðrétt í ávarpi sínu.
Hann nefndi að lykilpersóna í sköpun verksins væri hönnuðurinn Fífa Jónsdóttir sem Ólafur deilir hluta verðlaunanna með. Fífa er grafískur hönnuður og hefur sérhæft sig í vísindamiðlun. Hún starfar nú hjá Landi og skógi en áður hjá Landgræðslunni.
Útgefandi bókarinnar er Iðnú. Styrkir til útgáfunnar komu frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Vísindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur VOR og Landgærðslunni.
Nánar um afhendingu viðurkenningunnar og ávarp Ólafs Arnalds má finna á vef Hagþenkis, hagthenkir.is. Þar má einnig finna upplýsingar um bókina Mold ert þú – jarðvegur og íslensk náttúra og greinargerð viðurkenningarráðs Hagþenkis.
Land og skógur óskar Ólafi og Fífu innilega til hamingju með viðurkenninguna!