13. júní 2024
13. júní 2024
Hæg sumarkoma á Tunguheiði
Sumarið gengur rólega í garð á Tunguheiði í upplöndum Bláskógabyggðar. Gróður er þar seinn á ferðinni eins og víða annars staðar, ekki síst til heiða og fjalla. Uppgræðsluaðgerðum sem hófust á heiðinni 1997 er að mestu lokið en borið verður á valin svæði þar í sumar. Síðan verður landið afhent eigendum á ný, sem er harla sjaldgæfur viðburður þegar uppgræðslusvæði eru annars vegar.
Tunguheiði er svæði austan Hvítár fyrir ofan Gullfoss og teygir sig í átt til Bláfells. Árið 1975 var haft eftir Einari Helgasyni, bónda í Holtakotum í Biskupstungum, að Tunguheiði tilheyrði Bræðratungukirkju. Heiðin hefði áður verið samfellt graslendi en væri að mestu blásin upp. Uppgræðslustarfið hefur nú snúið þróuninni við og er svæðið mjög að gróa upp.
Þetta svæði var girt af árið 1997 í tengslum við kolefnisbindingarátak ríkisstjórnarinnar á þeim tíma. Landgræðslan vann upp frá því að uppgræðslu á heiðinni, stundum í samvinnu við Landgræðslufélag Biskupstungna. Samningur um svæðið rennur út á þessu ári en að sögn Garðars Þorfinnssonar, héraðsfulltrúa hjá Landi og skógi á Suðurlandi, verður borinn tilbúinn áburður á valda staði innan Tunguheiðar nú í sumarbyrjun. Þegar samningurinn rennur út gerist sá heldur fátíði atburður að landið verður afhent eigendum sínum á ný sem er ánægjulegt og til marks um árangurinn.
Meðfylgjandi myndir eru allar teknar á svipuðum slóðum með Jarlhettur og Langjökul í baksýn. Efsta myndin er glæný, tekin ellefta júní, og sýnir vel hvaða áhrif kalt vor getur á gróður, sérstaklega ef hún er borin saman við næstu mynd fyrir neðan sem tekin var fjórtánda júní 2022. Fyrir tveimur árum var gróður kominn vel á veg en nú rétt örlar á nývextinum.
Neðsta myndin er svo tekin 2017 og gefur hugmynd um hvernig hið horfna graslendi á Tunguheiðinni hafði breyst í auðn áður en aðgerðir hófust. Myndirnar tók Garðar Þorfinnsson.