16. apríl 2024
16. apríl 2024
Grænir sprotar þótt kalt sé úti
Þegar svalt er í veðri á útmánuðum og vorið lætur bíða eftir sér er gott að geta unnið við grænkandi og spírandi gróður. Um þetta leyti árs er unnið að spírunarprófunum hjá Landi og skógi í Gunnarsholti og í Vaglaskógi fara fram gæðaprófanir á skógarplöntum með meiru.
Spírunarpróf í Gunnarsholti
Land og skógur sér um að spírunarprófa fræ fyrir seljendur fræs á Íslandi. Standist fræið lágmarkskröfur um spírunarhæfni sér MAST um að veita viðkomandi frælotu vottorð. Tekið er á móti fræinu sem getur verið sáðkorn af byggi, einært grænfóður, rauðsmári, repja, ýmiss konar grasfræ og fleira.
Svolítið mismunandi er hvaða spírunaraðferð er notuð eftir því hver frætegundin er. Ýmist er notaður kringlóttur spírunarpappír á diskum eða pappírsræmur sem rúllað er upp. Svo er fræið talið og alls eru 400 fræ úr hverri frælotu spírunarprófuð, 50 fræ í einu á hverjum diski eða rúllu. Mismunandi er líka hvernig meðhöndla þarf fræin í prófinu, hversu lengi þarf að örva þau í kulda og við hvaða hitastig þau eru síðan látin spíra í sérstökum spírunarskáp. Eftir tiltekinn dagafjölda í spírun eru fræin flokkuð í spíruð, ónýt og óspíruð. Loks eru niðurstöðurnar sendar seljanda fræsins og einnig til MAST sem ber ábyrgð á að einungis frælotur sem standast spírunarpróf fari á markað.
Grænt í gámi á Vöglum
Í Vaglaskógi stendur sérhæfður einangraður gámur sem notaður er við ýmsar tilraunir og gæðaprófanir. Þar eru sýnishorn af skógarplöntum frá gróðrarstöðvum gæðaprófuð til að kanna heilbrigði þeirra og almennt ástand áður en ákveðið er hvort plönturnar teljast hæfar til afhendingar skógarbændum og öðrum skógræktendum. Þessar prófanir fara einmitt fram síðla vetrar eða í vorbyrjun.
En í gámnum fara líka fram ýmsar tilraunir og undanfarin misseri hefur til dæmis verið unnið að tilraunum með fjölgun á lerkiblendingnum Hrym með stiklingum. Fræ af Hrym er af skornum skammti og dýrmætt að vita hvort raunhæft er og hagkvæmt að fjölga honum einnig með stiklingum enda hefur þessi blendingur mikinn vaxtarþrótt og virðist þrífast vel víða um landið.
Anne Bau í Gunnarsholti og Rakel Jónsdóttir á Akureyri eru meðal þeirra sem eru svo heppin hjá Landi og skógi að geta fengist við grænan gróður löngu áður en gróðurinn utan dyra fer að taka við sér á vorin.
Heimildir: Anne Bau og Rakel J. Jónsdóttir