Fara beint í efnið

16. október 2024

Gott að eldast – Undirritun samnings um rekstur samþættrar heimaþjónustu fyrir aldraða í Húnaþingi vestra

Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) og Sveitarfélagið Húnaþing vestra hafa undirritað samning um rekstur samþættrar heimaþjónustu fyrir eldri borgara í Húnaþingi vestra. Samningurinn byggir á þátttöku í þróunarverkefni stjórnvalda „Gott að eldast“ sem samþykkt var á Alþingi þann 10. maí 2023.

Frá undirritun samnings um rekstur samþættrar heimaþjónustu fyrir aldraða

Markmið samnings er að veita heildræna og skilvirka samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu við fólk í heimahúsi og þannig stuðla að öruggri búsetu eldra fólks sem lengst heima, við sem eðlilegastar aðstæður.

Undirbúningur hefur staðið yfir í tæpt ár og hafa fulltrúar HVE og sveitarfélagsins unnið mjög gott starf þar sem horft er á verkefnið út frá nýjum áherslum. Þá hefur Hvammstanga verðið falið að prófa nýtt mælitæki (WHODAS) sem er til að meta þörf einstaklinga fyrir heimaþjónustu.

Samningurinn tekur gildi 1. janúar 2025 og mun HVE sjá um rekstur þjónustunnar.

Samingurinn gildir til 31. desember 2027 og verður endurskoðaður árlega í samræmi við þróun þjónustunnar og þarfir eldri borgara í Húnaþingi vestra.