19. júní 2025
19. júní 2025
,,Góður þjarki gleymir sér aldrei!”
Fjármáladeild HSU // Viðtal við starfsfólk um stafrænar hjálparhellur

Frá vinstri til hægri er starfsfólk fjármáladeildar HSU: Margrét Björk Svavarsdóttir framkvæmdastjóri, Anna M. Sívertsen, Guðrún Helgadóttir, Gerður Óskarsdóttir og Dalia Vurusic. Allar hafa þær tekið þátt í innleiðingu á notkun þjarka, en Anna og Gerður þó borið hitann og þungann af verkefninu.
Fjármáladeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hefur á undanförnum tveimur árum tekið stór stökk í stafrænni umbreytingu með því að innleiða þjarka, sem er íslenska heitið yfir róbóta, í ýmsa vinnuferla. Við settumst niður með starfsfólkinu og fengum innsýn í hvernig þetta ómetanlega starfsfólk af stafrænum uppruna hefur breytt daglegu starfi í deildinni.
Hvenær byrjuðuð þið að nota þjarka í rekstrinum?
„Fyrsti þjarkinn okkar var tekinn í gagnið fyrir um tveimur árum. Hann sækir daglega upplýsingar vegna tekjuuppgjöra úr öllum móttökum heilsugæslna HSU. Gögnin eru dregin úr Sögukerfinu og posauppgjöri Valitors og sett inn í bókunarskjal sem við yfirförum og bókum.“
Hvaða aðrir þjarkar hafa bæst við?
„Í byrjun árs 2025 hóf annar þjarki starf sitt. Hann sækir vikulega upplýsingar úr Sögukerfinu um ógreidda reikninga og sendir greiðsluseðla í heimabanka og á Island.is. Þessi róbóti hefur tekið yfir verkefni sem áður voru bæði tímafrek og viðkvæm fyrir villum.“
Við heyrðum af nýjasta þjarkanum, Eldborgu. Hverju sinnir hún?
„Eldborg er þjarki sem sér um að innheimta greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands vegna sjúklinga sem eru sjúkratryggðir innan Evrópu og sækja þjónustu til HSU. Eldborg safnar saman öllum gögnum – þar á meðal eyðublöðum, myndum af skilríkjum og kvittunum – og býr til reikninga í tekjubókhaldskerfi ríkisins. Síðan sendir hún gögnin gegnum gátt til Sjúkratrygginga, og þegar greiðsla berst, sér hún um að stemma hana af og ljúka ferlinu gegnum innheimtukerfi HSU.“
Eru fleiri lausnir í vinnslu?
„Já, í samstarfi við Advania erum við að vinna að því að þróa þjarka sem tengist rannsóknakerfinu Flexlab. Hann mun sækja kostnað vegna rannsókna sem framkvæmdar eru hjá HSU, reikna út millideildasölu og senda reikninga til annarra stofnana sem þjónustan var veitt fyrir.“
Hver hefur ávinningurinn verið?
„Þetta hefur einfaldlega gengið vonum framar. Ferlin eru orðin bæði skilvirkari og öruggari. Þjarkarnir leysa af mörg endurtekningaverkefni sem áður voru unnin handvirkt. Það skiptir miklu máli – góður þjarki gleymir sér aldrei, vinnur dag og nótt, gerir engin mistök og sinnir sínu hlutverki af nákvæmni.“