23. nóvember 2006
23. nóvember 2006
Þessi frétt er meira en árs gömul
Góðar fréttir úr umferðinni
Ellefu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring en það telst mjög lítið samanborið við aðra daga í haust og vetur. Best af öllu er þó að engar fregnir bárust af slysum á fólki í þessum óhöppum. Lítið bar á hraðakstri í gær en afskipti voru höfð af nokkrum ökumönnum sem vanræktu merkjagjöf. Þrír voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunarakstur. Sá var stöðvaður í austurbænum um miðnætti. Þá voru skrásetningarnúmer klippt af fjórum ökutækjum, þrjú voru ótryggð og eitt var óskoðað.
Þess má geta að lögreglunni berast margar kvartanir þessa dagana þar sem fundið er að ökutækjum sem er illa lagt. Það eru því vinsamleg tilmæli til ökumanna að þeir sýni tillitssemi hvað þetta varðar.