21. desember 2023
21. desember 2023
Gjöf til endurhæfingardeildar
Endurhæfingardeild HSA í Neskaupstað barst á dögunum gjöf til minningar um Önnu Þóru Árnadóttur sjúkraþjálfara sem starfaði hjá stofnunni til fjölda ára. Um er að ræða Bobath bekk, sem er tvískiptur tvöfaldur meðferðarbekkur.
Bekkurinn mun nýtast stórum hópi skjólstæðinga eins og eldra fólki, einstaklingum með lömun, Ms, Parkinsson og fleirum. Bekkurinn er breiður og veitir það skjólstæðingnum öryggi við æfingar en hann mun einnig nýtast mjög vel í barnaendurhæfingu en barnaendurhæfing var Önnu dýrmæt og alltaf mjög ofarlega í huga.
Fjölskylda Önnu Þóru lét útbúa platta sem mun fylgja bekknum með orðunum „EKKI GLEYMA AÐ JÁKVÆÐNI, HLÁTUR OG BROS ERU GÓÐ BYRJUN Á ENDURHÆFINGU“. Þessi orð lýsa vel þeirri Önnu Þóru sem við þekktum hér innan HSA. Anna Þóra kom alltaf inn í herbergið brosandi og helst syngjandi og dansandi. Hún hafði með þessum hætti einstakt lag á að drífa fólk með sér í dans og söng. Hvort sem um var að ræða skjólstæðinga eða okkur starfsfólkið.
Gjöfin mun nýtast stofnuninni vel og HSA þakkar af alhug þann velvilja og stuðning sem í framlaginu felst.