21. febrúar 2023
21. febrúar 2023
Gefum börnum tækifæri til að stuðla að góðri heilsu
Pistillinn er hluti af átaki Forvarnarráðs HSU í að efla heilsulæsi íbúa
Öll börn þurfa nægan svefn, næringarríkt mataræði og reglulega hreyfingu. Þetta er ekki flókin uppskrift en í amstri hversdagsleikans getur þetta reynst börnum og fjölskyldum þeirra erfitt.
Svefn er eitt af því mikilvægasta sem ég ræði við börn og foreldra sem leita til mín á HSU vegna ýmissa vandamála. Mér finnst allt of lítil virðing borin fyrir svefni, bæði barna og fullorðinna, og tækifæri til að fá nægan svefn ætti að vera forgangsatriði á hverju heimili.
Helsta hindrun góðra svefnvenja er að mínu mati skjátækjanotkun og það krefst oft samvinnu allra á heimilinu til að koma á góðum svefnvenjum. Það hefur reynst mörgum fjölskyldum vel að eftir kvöldmat sé lokað fyir aðgengi að skjám, bæði barna og fullorðinna. Samverustund fjölskyldunnar verður þá oft með nýju sniði, örvunin ekki eins mikil rétt fyrir svefninn og auðveldara að fara að sofa á skynsamlegum tíma.
Viðbættur sykur er sérstök ógn við heilsu barna, en hann leynist oft í fljótlegri og ódýrri fæðu. Hraðinn í samfélaginu leiðir oft til þess að við gefum okkur ekki tíma til matseldar með næringarríkri fæðu og fyrir vikið veljum við það sem er auðvelt og fljótlegt. Börnin okkar hafa mörg hver litla þekkingu á mat og grípa það sem hendi er næst þegar komið er heim úr skólanum. Það fellur í hlut okkar foreldra að kenna börnunum um næringu, hráefni, samsetningu hollrar máltíðar og að gera þau að þáttakendum í matargerð. Slík þekking er gríðarlega mikilvæg því með aldrinum þurfa börnin sjálf að taka meiri ábyrgð á fæðuvali.
Líkamleg hreyfing barna er mikilvægur þáttur í góðri heilsu. Hreyfingin stuðlar að vellíðan, bætir svefn, styrkir bein og vöðva sem er sérstaklega mikilvægt hjá vaxandi börnum. Skólaíþróttir og sund eru oft eina hreyfingin sem börn fá ef þau æfa ekki íþróttir. Veður og færð gerir það að verkum að börnum er oft skutlað í stað þess að nýta ferðina til hreyfingar. En þegar tækifæri gefst hvet ég alla til að spyrja sig: Gæti ég farið fótgangandi eða á hjóli, og þá er ég ekki að meina rafmagnshlaupahjóli. Stærsta áskorunin varðandi reglubundna hreyfingu er einmitt að gera hana reglulega, koma hreyfingu inn í rútínu og vana. Hér geta foreldrar hjálpað börnum sínum mikið og skipulagt sameiginlega hreyfingu, hvort sem það er einhver útivera eða líkamsrækt heima, því þáttaka foreldra getur verið lykilatriði til lengri tíma.
Mig langar til að foreldrar og forráðamenn velti fyrir sér: Er barnið mitt að fá nægan svefn? Er mataræðið næringarríkt? Er mikill viðbættur sykur í fæðunni? Stundar barnið mitt reglulega hreyfingu?
Ef ekki, hvaða möguleikar eru til að bæta þá þætti sem stuðla að heilsu og hvaða hindranir eru í veginum?
Vignir Sigurðsson, barnalæknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands