19. nóvember 2007
19. nóvember 2007
Þessi frétt er meira en árs gömul
Gæsluvarðhaldskrafa vegna hnífstungu við Hellisheiðarvirkjun
Lögreglustjórinn á Selfossi óskaði eftir því við Héraðsdóm Suðurlands að maður sá sem grunaður er um að hafa stungið mann með hníf við Hellisheiðarvirkjun um helgina verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til næstkomandi mánudags. Dómari hefur tekið sér frest til hádegis á morgun. Einn maður hefur verið látinn laus og tveir aðrir sem voru með þeim grunaða verða yfirheyrðir nú síðdegis. Einnig er eftir að taka skýrslu af brotaþolanum en það reyndist ekki unnt í gær vegna ölvunarástands hans. Þegar atvikið átti sér stað voru á milli 40 og 50 menn samankomnir í húsinu að horfa á knattspyrnuleik í sjónvarpi. Ekki er ljóst enn hvort hnífsstungan átti sér stað inni í húsinu eða fyrir utan það. Ljóst er að mikil vinna er framundan við að ræða við alla þá sem í húsinu voru í umrætt sinn.