Fara beint í efnið

5. ágúst 2022

Fyrstu tillögur að strandsvæðisskipulagi kynntar

Nú stendur yfir kynning á tillögum að strandsvæðisskipulagi Vestfjarða og Austfjarða. Um er að ræða fyrstu tillögur að skipulagi fjarða og flóa við strendur Íslands og er hér brotið í blað í hundrað ára skipulagssögu landsins.

polli

Skipulagsgerð færist út á hafið

Á undanförnum árum hefur verið hreyfing í þá átt víða um heim að innleiða formlega skipulagsgerð á hafsvæðum, t.a.m. setti Evrópusambandið fyrstu strandsvæðisskipulags reglugerðina árið 2014. Það sem hefur ýtt á þessa þróun er í senn krafa um sjálfbæra nýtingu, aukin sókn ólíkrar nýtingar út á hafflötinn og viðleitni til að ýta undir vöxt bláa hagkerfisins. Skipulag fjarðar og flóa samþættir þannig nýtingu hafsins, allt frá fiskveiðum og fiskeldis til blárrar líftækni, orkumála á hafi úti og náttúruvernd.

Í landsskipulagsstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2016 var settur fram fyrsti vísir að skipulagsstefnu um hafsvæðin við Ísland. Árið 2018 voru síðan sett lög um skipulag haf- og strandsvæða. Á grundvelli þeirra skal vinna strandsvæðisskipulag fyrir afmörkuð svæði á fjörðum og flóum.

Með strandsvæðisskipulagi verður til stjórntæki, sambærilegt og við þekkjum við skipulag byggðar og landnýtingar uppi á landi. Vaxandi sókn ólíkra aðila í nýtingu fjarða og flóa hefur í för með sér samkeppni um staði og hugsanlega hagsmunaárekstra. Því er þörf á heildstæðri greiningu og yfirsýn svo haga megi nýtingu á sem sjálfbærastan hátt og í sem mestri og bestri sátt.

Frumkvæði heimamanna

Í lögum um skipulag haf- og strandsvæða var mælt fyrir um að þegar skyldi hefjast handa við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum og Austfjörðum. Brýnt þótti að koma skipulagi á nýtingu þeirra svæða vegna mikillar eftirspurnar og fyrirsjáanlegra hagsmunaárekstra, aðallega vegna aukins fiskeldis. Það var ekki síst fyrir áeggjan heimamanna á Vestfjörðum og Austfjörðum sem þessi svæði voru sett í forgang. Vestfirðingar höfðu áður unnið óformlega nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð, þar sem komin voru fram nýtingaráform um fiskeldi og vinnslu kalkþörungasets. Eins hafði Fjarðabyggð hafið vinnu við undirbúning slíkrar nýtingaráætlunar eystra.

Strandsvæðisskipulag

Strandsvæðisskipulag er unnið í samstarfi ríkis og sveitarfélaga undir stjórn innviðaráðherra. Ráðherra skipar fulltrúa ríkis og sveitarfélaga í svæðisráð sem eru ábyrg fyrir skipulagsgerðinni. Skipulagsstofnun aðstoðar svæðisráðin við mótun skipulagsins, kynningu tillagna og framfylgd eftir að skipulagið hefur tekið gildi.

Strandsvæði Vestfjarða og Austfjarða

Við mótun skipulagstillagnanna hefur verið aflað yfirgripsmikilla upplýsinga um náttúrufar, vistkerfi, veiðar, siglingar og önnur þau not sem nú fara fram í viðkomandi fjörðum og flóum. Mikil vinna hefur farið í að ná saman heildstæðum greiningum sem byggja á fyrirliggjandi gögnum en einnig var leitað í brunn staðkunnugra í gegnum samráðsferli.

Á báðum svæðum er öflugur sjávarútvegur sem sækir í gjöful fiskimið svæðanna og vaxandi sjókvíaeldi. Einnig eru á Vestfjörðum og Austfjörðum náttúrurík óbyggðasvæði sem hafa mikið aðdráttarafl og styðja við ferðaþjónustu og siglingar skemmtiferðaskipa. Jafnframt er hvort svæði með sín sérkenni og sérstöku úrlausnarefni. Á Vestfjörðum er að auki efnistaka kalkþörungasets en á Austfjörðum eru viðkomustaðir í neti evrópskra siglingaleiða og kröfur um öruggar siglingar því ríkari þar en almennt gerist.

Skipulagstillögur í kynningu

Í þeim skipulagstillögum sem nú eru í kynningu er mótuð stefna fyrir nýtingu og vernd hvors svæðis. Skipulagstillögurnar eru settar fram í skipulagsgreinargerð og á uppdrætti.

Á vefsíðunni hafskipulag.is er hægt að nálgast skipulagstillögur fyrir Vestfirði og Austfirði; greinargerðir, uppdrætti og umhverfismat. Einnig er þar hægt að kynna sér skipulagstillögurnar í gegnum vefsjá.

Kynningarfundir

Kynningarfundir um skipulagstillögurnar voru haldnir í júní 2022 á eftirfarandi stöðum:

Vestfirðir

  • Félagsheimilinu Baldurshaga á Bíldudal, 22. júní kl. 12:00-13:30

  • Félagsheimilinu Bolungarvík, 22. júní kl. 16:30-18:00

  • Hnyðju í Þróunarsetrinu á Hólmavík, 23. júní kl. 16:30-18:00

Austfirðir

  • Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar, 27. júní kl. 16:30-18:00

  • Menningar- og félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, 28. júní kl. 16:30-18:00

Aukafundur verður haldinn í Reykjavík á eftirfarandi stað:

  • Skrifstofu Skipulagsstofnunar Borgartúni 7b, 9 ágúst kl. 13:30-15:00

Fyrirhugað er að taka upp kynningar fyrir hvoruga tillögu fyrir sig og birta á hér á vefnum, þannig að hægt verði að kynna sér þær eftir hentisemi. Kynningarfundir sem fara í streymi verða einnig haldnir í ágúst í Reykjavík, en verða þeir tilkynntir síðar.

Frestur til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri er til 15. september 2022. Athugasemdum skal skilað bréflega til Skipulagsstofnunar, Borgartúni 7b, 105 Reykjavík, með tölvupósti á netfangið hafskipulag@skipulag.is