Fara beint í efnið

17. maí 2024

Fyrsti Dagur lækna

Stjórn Læknafélags Íslands hefur ákveðið að 17. maí ár hvert verði helgaður því að vekja athygli á störfum lækna á Íslandi.

Þórhalla Mjöll Magnúsdóttir, sérnámslæknir

Þórhalla Mjöll Magnúsdóttir er 30 ára sérnámslæknir í lyflækningum við Sjúkrahúsið á Akureyri. Hún ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur og hefur alltaf brunnið fyrir því að hjálpa fólki og láta því líða sem best. „Áhuginn fyrir því að verða læknir kviknaði eiginlega þegar ég var 13 ára gömul að vinna á hjúkrunarheimili,“ segir Þórhalla.

Henni var vel tekið í læknahópnum á SAk og metur samstarfsfólkið sitt mikið. Hún er þakklát fyrir það hversu náið unglæknar á SAk fái að vinna saman ásamt þeim sérfræðingum sem þar vinna. „Það sem er líklegast mest spennandi við starfið er að maður veit aldrei hvað dagurinn ber í skauti sér. Maður mætir alltaf á sama stað á sama tíma á hverjum degi en verkefnin eru aldrei eins.“

Í tilefni þessa fyrsta Dags lækna á Íslandi mun Læknafélag Íslands efna til umræðu um mikilvægi starfa lækna, mikilvægi þess að læknar geti sinnt störfum sínum þannig að sem mestur tími gefist til að sinna sjúklingum og aðstandendum þeirra og sem minnstur tími fari í óþarfa skriffinnsku og verkefni sem er kerfislega hagkvæmara að aðrir sinni. Þórhalla er sammála þessu og myndi helst vilja minnka pappírsvinnu ef það væri eitthvað sem hægt væri að breyta.

Ber mikla ábyrgð

Eins og áður segir var Þórhöllu vel tekið í læknahópi SAk og hún telur mikilvægt að fá að vinna með góðu samstarfsfólki sem vinni vel sem heild. „Eins og staðan er núna þá stefni ég á að klára sérnámið í lyflækningum en það gæti alveg breyst næstu fimm árin ef ég finn einhverja sérgrein sem vekur upp meiri áhuga en aðrar,“ segir Þórhalla um framtíðina.

Hún ber mikla ábyrgð sem sérnámslæknir og umsjónardeildarlæknir en tekur því fagnandi þar sem það gerir henni kleift að vaxa og þroskast í starfi. Líkt og alls staðar í heilbrigðisgeiranum er mönnun mikið vandamál og Þórhalla tekur undir að vinnuálagið geti orðið ansi þungt þegar það er undirmannað.

Frábært að búa á Akureyri

„Akureyri er mjög fjölskylduvænn staður og ástæðan fyrir því að við fluttum norður var að hér var hægt að fá leikskólapáss – annað en í bænum. Svo er bara svo mikil kyrrð og ró hérna og ég tala nú ekki um umferðina sem maður situr aldrei fastur í,“ segir Þórhalla að lokum.


Nafn: Þórhalla Mjöll Magnúsdóttir.

Starfsheiti: Sérnámslæknir í lyflækningum.

Fæðingarár: 1994.

Hvaðan ertu: Vesturbæ Reykjavíkur.

Menntun: Læknir.

Hversu lengi hefurðu unnið á SAk: 9 mánuði.

Áhugamál: Matreiðsla og ljósmyndun.

Hvað varstu í fyrra lífi: Úff, þessi er erfið, fyrsta sem kom upp í hausinn á mér var Golden Retriever af því ég er algjör hundakona haha!

Sturluð staðreynd: Ekki margir sem vita þetta en ég á tvíburasystur. Flestir halda að við séum systur eða vinkonur af því við erum mjög ólíkar, bæði útlitslega og í fari.

Hvernig lítur hefðbundinn vinnudagur út hjá þér á SAk:
Ég mæti kl. 8 á morgunfund inni á lyflækningadeild. Eftir morgunfundinn undirbý ég mig fyrir þá sjúklinga sem ég á að sinna eða hitta yfir daginn, hvort sem það er á lyflækningadeildinni eða almennu göngudeildinni. Síðan er genginn stofugangur frá 9:30 til ca. 11-12 og eftir það fer ég í hádegismat með kollegunum. Eftir hádegismat taka við alls kyns verkefni frá stofuganginum eins og t.d. að ganga frá útskriftum, vinna í læknabréfum og ýmislegt fleira. Klukkan 15:30 er síðan annar fundur fyrir vaktaskipti hjá sérfræðingunum og ég fer oftast heim eftir hann.

Hvað er skemmtilegast í vinnunni: Samstarfsfélagarnir og öll þau fjölbreyttu verkefni sem ég fæ að tækla dag frá degi!

Hvað er mest krefjandi í vinnunni: Vinnuálagið sem getur stundum verið ansi mikið þegar það er undirmannað.

Ef þú mættir breyta einhverju í vinnunni, hvað væri það: Væri mikið til í að pappírsvinnan væri minni!

Eitthvað að lokum? Lífsspeki? Eltu draumana þína og stattu á þínu og þá eru þér allir vegir færir! ☺️