16. júlí 2024
16. júlí 2024
Fyrr og nú á Vikrum Þjórsárdals
Miklar breytingar hafa orðið á gróðurfari á Vikrunum í Þjórsárdal á undanförnum áratugum. Myndir sem teknar voru með rúmlega tuttugu ára millibili á tveimur stöðum sýna glögglega árangurinn.
Vikrarnir í Þjórsárdal eru nú í umsjá Lands og skógar. Á meðfylgjandi myndapörum má annars vegar sjá asparskóg sem gróðursett var til í kringum árið 2002 á Vikrunum syðst í landi Skriðufells í Þjórsárdal. Á fyrstu myndinni sem tekin var árið 2002 stendur Thomas Menne, sem var starfsmaður Skógræktar ríkisins á þeim tíma, við nýgróðursettar asparplöntur. Nýrri myndin er tekin í sömu átt frá svipuðu sjónarhorni nú í júlí og sýnir vegarslóða sem liggur í gegnum asparreitinn.
Hitt myndaparið sýnir svæðið vestan við Sölmundarholt þar sem uppgræðsla hófst með sáningum árið 2003. Kjötmjöl var borið á svæðið árið 2009 og á þessum árum var gróðursett birki og fleiri trjátegundir í svæðið. Ferðaklúbburinn 4x4 hefur um árabil unnið að uppgræðslu og gróðursetningu á birki í sjálft Sölmundarholtið í sjálboðavinnu með stuðningi Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Hekluskóga. Landgræðslusjóður styrkti verkefni á svæðinu um árabil og margir fleiri hafa komið að verki. Á síðustu árum hefur verið unnið að gróðursetningu á öðrum svæðum í nágrenninu s.s. í samstarfi við Land Life Company, Bláa lónið / Rauðukamba og fleiri. Eru Vikrarnir nú óðum að breytast í skóg. Margir starfsmenn stofnunarinnar hafa komið að verki og en að öðrum ólöstuðum má nefna framlag Jóhannesar H. Sigurðssonar sem lagt hefur mikla vinnu í verkefnið síðustu 22 árin.
Myndirnar segja meira en mörg orð.
Heimild: Hreinn Óskarsson