Fara beint í efnið

25. apríl 2022

Fuglaflensa H5 á Íslandi

Inflúensa af A/H5 stofni hefur greinst í sýnum úr ýmsum sjófuglum og fleiri tegundum fugla.

Sóttvarnalæknir - logo

Matvælastofnun (MAST) hefur á undanförnum vikum birt fréttir af niðurstöðum sýnagreininga m.t.t. inflúensu úr fuglahræjum víða af á landinu. Inflúensa af A/H5 stofni hefur greinst í sýnum úr ýmsum sjófuglum og fleiri tegundum fugla.

Enn sem komið er hafa ekki komið upp útbreidd smit í alifuglum en alifuglar geta auðveldlega smitast af villtum fuglum ef þeir komast í snertingu við veika fugla eða hræ eða drit villtra fugla. Síðastliðið ár hefur nokkuð borið á þessum stofni í fuglum í öðrum Evrópulöndum en mjög fá smit orðið til manna.

Mikilvægustu forvarnir til að hindra smit til manna eru

  1. Forðast beina snertingu við fuglahræ og villta fugla. Einstaklingar sem verða varir við hræ fugla sem ekki hafa augljóslega orðið fyrir slysi eru beðnir um að tilkynna þau til MAST á vef stofnunarinnar. Ef nauðsynlegt er að handleika hræ ætti að nota hanska og setja þau í plastpoka skv. leiðbeiningum MAST. Ekki ætti að nálgast lifandi veika fugla nema með viðeigandi hlífðarbúnað, þ.m.t. veiruhelda (FFP2/N95) grímu.

  2. Koma í veg fyrir samgang alifugla og gælufugla við villta fugla og verja þá gegn driti villtra fugla skv. leiðbeiningum MAST og auglýsingu matvælaráðuneytis nr. 380/2022.

  3. Ef grunur um smit kemur upp í alifuglum er mikilvægt að tilkynna það tafarlaust til MAST og fylgja leiðbeiningum MAST um hlífðarbúnað og önnur viðbrögð.

Viðbrögð við veikindum í mönnum

Smit hjá mönnum af völdum A/H5 stofna eru mjög fátíð.

Ef inflúensa af stofni A sem ekki reynist H3 eða H1 (árleg inflúensa) greinist í sýni frá veikum einstaklingi verður stofninn týpugreindur að staðfesta eða útiloka A/H5 veirur sérstaklega ef sá veiki hefur umgengist fugla eða hræ.

Veirulyf gegn inflúensu eru virk gegn þessum stofni ef meðferð hefst tímanlega (innan 48 tíma frá upphafi einkenna). Fyrr á þessu ári var hvatt til notkunar slíkra lyfja hjá einstaklingum með inflúensulík einkenni og áhættuþætti fyrir alvarlegum veikindum vegna inflúensu, en nú skal bætt við að rétt er að hefja meðferð um leið og sýnataka er gerð ef inflúensulík einkenni koma upp hjá einstaklingi sem umgengist hefur fuglahræ eða veika fugla án viðeigandi hlífðarbúnaðar.

Sóttvarnalæknir