Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

9. desember 2025

Frumvarp um eingreiðslu til meðferðar á Alþingi

Í frumvarpi félags- og húsnæðisráðherra sem mælt var fyrir á Alþingi 10. nóvember síðastliðinn er lagt til að eingreiðsla í desember verði vegna ellilífeyris, örorkulífeyris og sjúkra- og endurhæfingargreiðslna.

Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir: „Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingu frá fyrirkomulaginu sem verið hefur undanfarin ár á eingreiðslunni til að hún komi betur til móts við þá sem eru tekjulægstir. Gert er ráð fyrir að full eingreiðsla verði 73.390 krónur og undanþegin skatti, auk þess sem hún leiðir ekki til skerðingar á öðrum greiðslum."

Miðað er við í frumvarpinu að þau sem eru með skráð lögheimili hér á landi 1. nóvember 2025 og hafi verið með ofangreindar greiðslur frá TR geti fengið eingreiðsluna, í hlutfalli við þann mánaðarfjölda sem viðkomandi hefur fengið greiðslur á árinu. Eingreiðslan fer ekki til dánarbúa samkvæmt frumvarpinu.

Frumvarpið er nú til meðferðar á Alþingi og endanleg ákvörðun um greiðsluna liggur því ekki fyrir fyrr en að lokinni þriðju umræðu í þinginu. Að lokinni umfjöllun og afgreiðslu Alþingis mun TR bregðast við í samræmi við ákvörðun þingsins.

Við hvetjum viðskiptavini til að fylgjast vel með á Mínum síðum TR og á vefnum tr.is.

Rétt er að taka fram að ekki er um að ræða hina hefðbundnu desemberuppbót, en hún verður greidd 1. desember næstkomandi.

Sjá frétt á vef ráðuneytisins.