Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

4. apríl 2007

Þessi frétt er meira en árs gömul

Fréttir úr umferðinni

Fimmtán umferðaróhöpp hafa verið tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu það sem af er degi en þau voru tuttugu og þrjú á síðasta sólarhring. Nítján ára piltur var tekinn fyrir ölvunarakstur í nótt en sá var stöðvaður á Gullinbrú og í morgun var karlmaður á sextugsaldri tekinn fyrir sömu sakir í Holtagörðum. Eftir miðnætti var karlmaður á þrítugsaldri handtekinn í Kópavogi en hann var undir áhrifum lyfja við stýrið og hafði ekið á þrjá bíla.

Fáir voru teknir fyrir hraðakstur á síðasta sólarhring og er vonandi að ökumenn haldi áfram að virða hámarkshraða. Sumir virðast þó þurfa að flýta sér meira en aðrir en það kann aldrei góðri lukku að stýra. Þannig var það með ökumanninn sem var stöðvaður á 30 km götu í Garðabæ í gær en sá ók langt yfir leyfðum hámarkshraða. Umræddur ökumaður, sem er nítján ára piltur, hafði það eitt upp úr krafsinu að fá 40 þúsund króna sekt og tveggja mánaða ökuleyfissviptingu.

Við umferðareftirlit í morgun var sérstaklega eftir því tekið hversu margir ökumenn og farþegar notuðu bílbelti. Vonandi verður framhald á því.