Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

22. desember 2025

Fréttapóstur HSU - Haustið 2025: „Hjartað í HSU“

Hjartað í HSU // Haust 2025

Hérna birtum við 4. tölublaðið af fréttapósti Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sem við köllum „Hjartað í HSU". Þessi haustútgáfa er safnútgáfa tíðinda HSU frá september, október og nóvember 2025, sem við höfum birt á vef og samfélagsmiðlum okkar. Einnig er alltaf eitthvað um nýtt efni, sem seinna ratar á aðra miðla HSU.

Smelltu hérna til að skoða Hjartað (PDF). Jafnframt er hægt að fletta gegnum myndir á samfélagsmiðlum HSU (til dæmis Facebook) til að skoða stakar blaðsíður (JPG).

Í pistli Díönu Óskarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, í haustútgáfu Hjartans segir meðal annars:

,,Í þessu tölublaði Hjartans í HSU lítum við yfir einstaklega farsæla og kraftmikla haustmánuði – september, október og nóvember – þar sem markmið okkar um að veita aðgengilega, mannúðlega og örugga heilbrigðisþjónustu hefur skilað sér í verki.

Stærstu tíðindin í haust fólust í opnun Heilsugæslu Uppsveita í byrjun nóvember, sem markar mikilvægt skref í að efla þjónustu á víðfeðmu dreifbýlissvæði og bæta aðgengi fjölskyldna og aldraðra að faglegri heilsugæslu í heimabyggð. Heilsugæslan opnaði formlega 6. nóvember og er þessi áfangi skýr birtingarmynd stefnu HSU um að færa þjónustuna nær fólki og styrkja grunnstoðir heilsugæslunnar.

Einnig fjöllum við um öflugan tækjabúnað, aukna samvinnu við sveitarfélög, nýsköpunarverkefnið Leviosa, framfarir í mæðravernd, vinnu okkar með börnum og metnaðarfulla uppbyggingu mannauðs stofnunarinnar. Hér kynnast lesendur þeim fjölbreyttu verkefnum sem starfsfólk HSU vinnur af fagmennsku, metnaði og stolti í þágu íbúa umdæmisins.

SAMRÆMD ÞJÓNUSTA OG ÖFLUG UPPBYGGING MANNAUÐS
Samhliða opnun Heilsugæslu Uppsveita höfum við lagt aukna áherslu á samræmda þjónustu og ráðgjöf fyrir íbúa á öllu starfssvæði HSU. Íbúa- og samstarfsfundir hafa verið haldnir og hafa þeir reynst mikilvægur vettvangur til að hlusta á þarfir samfélagsins og ræða sameiginlegar lausnir að góðri heilsu.

Við höfum jafnframt styrkt starfsemi með fjölgun sérfræðinga og eflt þjónustu á mikilvægum sviðum. Má þar nefna nýjan yfirlækni á bráðamóttökunni á Selfossi, nýjan yfirlækni í Rangárþingi og aukna áherslu á að laða íslenska lækna heim. Við þurfum öflugan mannauð til að veita öfluga þjónustu og þessar viðbætur skipta miklu máli fyrir allt umdæmi okkar.

TÍÐ UPPLÝSINGAMIÐLUN STYRKIR SAMFÉLAG OG STARFSFÓLK
Heilbrigðisþjónusta byggist á trausti, þekkingu og opnum samskiptum. Þess vegna höfum við lagt áherslu á reglulega upplýsingamiðlun á vef okkar, samfélagsmiðlum og í tímaritinu Hjartanu, þar sem við tökum saman helstu fréttir hvers ársfjórðungs og kynnum verkefni, mannauð og þróun innan HSU.

Markmiðið er að gera þjónustuna skýrari og aðgengilegri, auka innsýn í starfið og styrkja fagmennsku og samvinnu. Góð og tímanleg upplýsingamiðlun er ekki aðeins kynning, hún er jafnframt hluti af þjónustunni sjálfri. Þegar að starfsfólk og íbúar eru vel upplýst um hvaðeina í starfseminni verður þjónustan betri, samstarfið nánara og upplifun skjólstæðinga jákvæðari.

Að lokum vil ég vil þakka starfsfólki, sveitarfélögum, velunnurum og íbúum fyrir frábært samstarf í haust og það mikla traust sem okkur er sýnt daglega. Saman byggjum við upp heilbrigðisþjónustu í umdæmi HSU eins og hún á að vera: faglega, hlýja og mannúðlega."