14. júní 2024
14. júní 2024
Fregnir af heilsu og blómgun trjáa óskast
Nú er komið sumar og allt farið að lifna í kringum okkur, líka skaðvaldarnir! Land og skógur óskar eftir upplýsingum um skaðvalda á trjám og öðrum gróðri hvaðanæva af landinu. Sömuleiðis er óskað frétta af blómgun trjátegunda og hvort útlit er fyrir góðan fræþroska í haust.
Líkt og fyrri ár eru landsmenn beðnir senda upplýsingar um ástand skóga og trjáa þar sem farið er um, sérstaklega ef fólk sér einhverja óværu á trjánum, skordýr, sjúkdóma eða eitthvað óeðlilegt í útliti trjánna eða yfirbragði skógarins. Þetta samstarf við lærða og leika um allt land hefur reynst afar vel undanfarin ár og þakkar Land og skógur öllum sem veitt hafa upplýsingar.
Hafði kuldakastið áhrif?
Kuldakastið sem gekk yfir landið í byrjun júní gæti hafa sett mark sitt á gróður víða um land, bæði norðanlands þar sem víða snjóaði og hitinn fór jafnvel niður fyrir frostmarkið en líka annars staðar þar sem kaldir vindar gætu hafa farið illa með nýútsprungið lauf. Því er fólk sérstaklega beðið að horfa eftir slíkum skemmdum.
Pöddurnar komnar á kreik
Nú er líka farið að bera á þeim helstu skordýrum sem herja á trén. Birkikemban er til dæmis komin á kreik og á næstu vikum fara ummerki hennar að koma betur í ljós. Asparglytta hefur líka sést í flokkum, sérstaklega á alaskaösp og gulvíði. Glyttan hefur herjað um árabil sunnanlands en lítið borið á henni á Norðurlandi. Nú eru hins vegar merki um að hún sé að breiðast meira út þar, ekki síst við Eyjafjörð. Myndina hér efst tók Valgerður Erlingsdóttir, skógræktarráðgjafi á Suðurlandi, í asparskógi á Skeiðum. Hér að neðan er svo mynd af asparglyttu á karlkyns gulvíði í Eyjafirði tekin í vor.
Gagnlegt væri að fá upplýsingar um nýja staði eða svæði sem nýir skaðvaldar finnast á, ekki síst þeir sem hafa verið að dreifa sér um landið undanfarið, svo sem áðurnefnd birkikemba en líka birkiþéla sem herjar á birkið seinni hluta sumars með svipuðum hætti og birkikemban. Hér sést örsmá birkikembulirfa sem byrjuð var að éta innan úr laufblaði á birki við Eyjafjörð nú í vikunni.
Blómgun og fræþroski
Auk upplýsinga um skaðvalda er sem fyrr segir safnað upplýsingum um hvers kyns skemmdir á trjám en líka um blómgun á trjám og horfur á fræframleiðslu. Birki stendur um þessar mundir í miklum blóma víða um land og útlit er fyrir mjög gott fræár á birki á Norðurlandi til dæmis. Á Suðurlandi blómstrar greni vel og gæti myndað talsvert fræ í haust. En hvað með aðrar trjátegundir og aðra landshluta? Allar upplýsingar eru vel þegnar. Hér er mynd sem sýnir karl- og kvenrekla á birkitré. Kvenreklarnir standa upp í loftið en karlreklarnir hanga.
Myndir mega gjarnan fylgja með innsendum upplýsingum enda geta þær verið mjög gagnlegar til að staðfesta greiningar. Allar myndir eru vistaðar í gagnagrunni þar sem fram kemur hver tók myndina. Gengið er út frá því að innsendar myndir megi nota í fyrirlestra en ljósmyndara ávallt getið. Sérstaklega verður hins vegar óskað eftir leyfi ef ætlunin er að nota myndir til birtingar, svo sem í útgefnum ritum eða á vef, ef þannig ber undir. Ef fólk vill ekki að myndir séu notaðar í annað en til gagnasöfnunar er það beðið að láta þess getið.
Til aðstoðar við greiningar er hér hlekkur á stutta samantekt sem Edda Sigurdís Oddsdóttir vistfræðingur tók saman fyrir nokkru og hefur að geyma myndir af öllum helstu skordýrum sem valda skaða á trjám hérlendis. Samantektin er að miklu leyti byggð á upplýsingum af fróðlegum pödduvef Náttúrufræðistofnunar (ni.is) sem gott er að skoða til að glöggva sig á hvaða skaðvaldar eru á ferðinni
Upplýsingar um skaðvalda og skemmdir á trjám má senda Brynju Hrafnkelsdóttur á netfangið brynja.hrafnkelsdottir@landogskogur.is eða Helgu Ösp Jónsdóttur á netfangið helga.o.jonsdottir@landogskogur.is.
Hér neðst er svo mynd af birkisprotalús sem ljósmyndari hitti á birkitré á Akureyri í vikunni. Hún er ekki alvarlegur skaðvaldur á trjánum og veldur ekki teljandi skemmdum á trjánum.