Fara beint í efnið

25. júní 2024

Framtíðaruppbygging heilsugæsluþjónustu HSU í uppsveitum Suðurlands

Nú liggur fyrir að heilsugæsla HSU í Laugarási verður flutt í nýtt húsnæði vorið 2025. Aðdragandi að flutningi heilsugæslunnar verður rakinn hérna í þessari samantekt.

Díana

Saga heilsugæslunnar í Laugarási
Laugaráslæknishérað var myndað út frá Grímsneslæknishéraði sem hafði verið stofnað um aldamótin 1900. Staðarval byggði að mörgu leiti á samgöngum, þar sem flutningar voru oft á tíðum erfiðir og þurfti að ferja lækna og aðra vegfarendur yfir Hvítá til að komast á milli staða. Fyrsti læknirinn í héraðinu var Skúli Árnason sem hafði búseturétt í Skálholti og bjó hann þar fram til ársins 1920. Þegar hann lét af störfum komu upp vandamál með búsetumál læknis og sveitarfélögin, sem þá voru sjö talsins, keyptu Laugarásjörðina, m.a. vegna jarðhitans og miðlægrar staðsetningar. Árið 1966 var byggt íbúðarhús með læknamóttöku í Laugarási og tveimur árum síðar var móttakan stækkuð. Árið 1997 flutti heilsugæslan í núverandi húsnæði en síðan hefur samfélagið breyst umtalsvert.

Í dag er mikil uppbygging í uppsveitum Suðurlands og þéttbýliskjarnar eru að myndast í Reykholti og á Flúðum, samgöngur milli sveitarfélaganna hefur einnig breyst mikið m.a. með tilkomu brúar yfir Hvítá. Á sama tíma er heilsugæslan í Laugarási að einangrast þar sem takmörkuð uppbygging hefur átt sér stað á því svæði undanfarið. Fyrir um tveimur árum lagðist af starfsemi apóteks í Laugarási þar sem rekstrargrundvöllur var ekki fyrir starfsemi þess. Lokunin hafði óneitanleg áhrif á þjónustuna við íbúana sem nú þurfa að sækja lyfin sín annað, m.a. á Selfoss. Þess má einnig geta að heilsugæslan í Laugarási er sú stöð innan HSU þar sem skjólstæðingar hafa í meira mæli en aðrir íbúar á Suðurlandi sótt sína þjónustu til annarra heilsugæslustöðva.

Núverandi húsnæði heilsugæslunnar
Heilsugæslan í Laugarási er nú til húsa í leiguhúsnæði við Launrétt 4 í Laugarási. Komið er að viðhaldi húsnæðisins og jafnframt er þörf á að endurskipuleggja innra skipulag starfseminnar til að mæta nútímakröfum í heilbrigðisþjónustu. Fyrir liggur að þessar framkvæmdir yrðu kostnaðarsamar og til viðmiðunar á þeim kostnaði eru sambærilegar framkvæmdir sem gerðar voru á heilsugæslustöð HSU í Þorlákshöfn. Í ljósi þessa var því mikilvægt að leggja mat á það hvort núverandi staðsetning heilsugæslunnar væri hentug til framtíðar eða hvort vænlegra væri að færa heilsugæsluna í þéttari byggðarkjarna og á sama tíma efla þjónustuna við íbúa uppsveita Suðurlands.

Allt ferlið í kringum flutning heilsugæslunnar hefur verið vel ígrundað og hafa verið haldnir fundir með fulltrúum sveitarfélaganna, auk þess sem haldinn var íbúafundur í Reykholti í október sl. Mörg sjónarhorn hafa komið fram og eru rökin bæði með og á móti flutningi og hafa þau öll verið ígrunduð gaumgæfilega, en ákvörðunin um að flytja heilsugæsluna um set er m.a. byggð á hagkvæmni og framtíðarþörf heilsugæslunnar. Eins og fyrr hefur verið greint frá á heimasíðu HSU var í janúar 2024 óskað eftir tilboði um nýtt húsnæði í þéttbýliskjarna í uppsveitum Suðurlands sem gæti hýst heilsugæslu. Þrjú tilboð bárust og uppfylltu öll tilboðin þær kröfur sem gerðar voru til húsnæðisins. Eitt þeirra reyndist hagstæðast og var því tilboði tekið.

Flutningur heilsugæslunnar á Flúðir
Heilsugæslan flytur í nýtt húsnæði við Hrunamannaveg 3 á Flúðum vorið 2025 með það að markmiði að bæta þjónustuna og er það framtíðarstefna stofnunarinnar að stuðla að öflugri og góðri heilbrigðisþjónustu fyrir alla íbúa uppsveita Suðurlands.

Það er alltaf áskorun að fást við breytingar í umhverfi okkar en á sama tíma verðum við að hugsa fram á við og fylgja þeim straumum sem samfélagið tekur hverju sinni. Staðsetning heilsugæslu á Flúðum er því góður kostur og mun geta staðið undir þeirri þróun sem við viljum sjá í heilsugæsluþjónustu HSU í framtíðinni.

Díana Óskarsdóttir,
forstjóri HSU