Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

17. janúar 2025

Framkvæmdaóskir skógarbænda í rafræna þjónustugátt

Umsóknir skógarbænda um framkvæmdir á samningssvæðum sínum eru nú komnar í þjónustugátt Lands og skógar. Stofnunin nýtir sér stafrænt pósthólf á island.is til að senda skógarbændum tilkynningar og gera mikilvæg gögn aðgengileg á einum stað. Þetta er liður í stafrænni vegferð stofnunarinnar og bætir umsýslu með framkvæmdaóskir í skógrækt og skjóllundum á lögbýlum. Frestur til að skila inn framkvæmdaóskum er til og með 31. janúar.

Vetur á skógræktarsvæði. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Byrjun árs er sá tími þegar skógarbændur taka að huga að skógræktarframkvæmdum komandi sumars. Svið ræktunar og nytja hefur nú sent bændum bréf þar sem tíundað er nýtt fyrirkomulag á framkvæmdaumsóknum. Bændur fá tengil á þjónustugátt Lands og skógar (LOGS), skrá sig inn með rafrænum skilríkjum og fylla þar út umsóknarform.

Stefnt er að því að öll mikilvæg skilaboð LOGS til skógarbænda og gögn sem snerta verkefni þeirra verði aðgengileg á „mínum síðum“ á island.is og tilkynningar og gögn birtist þar í stafrænu pósthólfi hvers og eins í stað þess að berast í tölvupósti. Fyrst um sinn fá skógarbændur þó líka hefðbundinn tölvupóst með erindum á borð við beiðni um framkvæmdaóskir.

Bændur eru hvattir til að opna hólf sitt á island.is, fara þar í „mínar stillingar“ og virkja sjálfvirkar tilkynningar með því að setja þar inn netfang sitt. Einnig má óska eftir tilkynningum í bréfpósti. Þetta tryggir að kerfið hnippir í viðkomandi þegar nýtt efni kemur inn, til dæmis þegar fulltrúar Lands og skógar senda nýjar upplýsingar eða tilkynningar.

Nokkrir skógarbændur hafa að undanförnu prófað þetta nýja fyrirkomulag og bent á ýmsa hnökra sem sniðnir hafa verið af jafnóðum. Áfram verður unnið að því að fínpússa þetta og sömuleiðis að innleiða önnur rafræn samskipti við bæði skógarbændur og aðra sem njóta stuðnings stofnunar við ýmis verkefni sem snerta gróður- og jarðvegsauðlindir landsins.

Nánari upplýsingar gefa skógræktarráðgjafar í viðkomandi landshluta. Aðalsími Lands og skógar er 570 5550 og netfangið landogskogur@landogskogur.is.