Fara beint í efnið

8. júní 2023

Frá forstjóra

Árið 2022

Forstjóri

Margt hefur áunnist hjá HSU síðustu misserin en stofnunin hefur unnið markvisst að stefnumálum stofnunarinnar með það að markmiði að veita örugga, aðgengilega og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem tryggð er rétt þjónusta á réttum stað. Stofnunin
er einstaklega lánsöm að hafa gott fólk í vinnu sem leggur sig ávallt fram við að tryggja að við náum settum markmiðum.

HSU stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum í breyttri heimsmynd og er þar að mörgu að huga. Í hröðum heimi tæknibreytinga þarf að huga vel að öryggismálum og hefur HSU unnið ötult að uppfærslu á öryggisstefnu og persónuverndarmálum stofnunarinnar. HSU vinnur einnig markvisst að uppbyggingu og innleiðingu stafrænna lausna og erum við óhrædd við að stíga þau skref sem með þarf til að nýta sjálfvirknivæðingu og gervigreind þar sem það kemur að góðum notum.

Á síðasta starfsári samþykkti framkvæmdastjórn HSU umhverfis- og loftslagsstefnu fyrir stofnunina en stefnan fylgir eftir aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftlagsmálum og grænum
skrefum. Framvinda aðgerðaráætlunar HSU hefur gengið hratt eftir og er ánægjulegt að greina frá því að stofnunin hefur í samvinnu við starfsfólk hennar náð að ljúka öllum fimm grænu skrefunum sem stjórnvöld hafa skilgreint í umhverfis – og loftlagsmálum.
Starfsemisaukning hefur orðið á nær öllum starfsstöðvum HSU, hvort sem litið er til starfsemi heilsugæslu, sjúkrasviðs eða sjúkraflutninga. Til að mæta þeim verkefnum sem stöðugt bætast við er mikilvægt að huga vel að mannauði HSU en það er stefna HSU að efla öryggi og starfsánægju starfsfólksins. Til að standa vörð um fólkið okkar er öflug mannauðsstefna HSU í vinnslu og verður hún samþykkt og kynnt á öðrum ársfjórðungi 2023.

Mikilvægt skref hefur náðst í jafnréttismálum stofnunarinnar en HSU hefur hlotið jafnlaunavottun auk þess sem stofnunin hefur tvö síðustu ár hlotið viðurkenningu jafnvægisvogarinnar. Þessari vegferð er hvergi lokið og höldum við ótrauð áfram á þessari braut með það að markmiði að gera gott starf enn betra. Á árinu sem leið fékk HSU einnig viðurkenningu að mega bera titilinn Heilsueflandi vinnustaður, samkvæmt Embætti landlæknis. Heilsuefling á vinnustöðum er sameiginlegt verkefni vinnuveitenda, starfsfólks og samfélagsins alls og miðar að því að bæta heilsu og líðan vinnandi fólks. Við fögnum þessu skrefi og teljum viðurkenninguna styrkja okkur í að efla mannauð okkar enn frekar með bættri heilsu og líðan.

Á árinu opnaði HSU nýtt glæsilegt hjúkrunarheimili á Selfossi sem ber nafnið Móberg. Á Móbergi eru alls 60 hjúkrunarrými sem skiptast upp í fimm heimiliseiningar. Þetta er spennandi viðbót við þá fjölbreyttu starfsemi sem stofnunin sinnir. Mikil gróska hefur verið í þróunar- og rannsóknarstarfi HSU og viljum við efla það enn frekar á komandi misserum. Þá er ánægjulegt að sjá elju starfsmanna HSU á þessum vettvangi, bæði hvað varðar kynningar og framkvæmdir á nýsköpunarverkefnum, auk þátttöku í rannsóknum og öflugu fræðsluátaki.
Reglulega birtast forvarnar- og fræðsluerindi á vef stofnunarinnar. HSU fór af stað með nýtt verkefni sem ber heitið heimaspítali aldraða en markmið verkefnisins er að fækka innlögnum á sjúkrahús og stytta innlagnartíma með stuðningsmeðferð í heimahúsi. Verkefnið hefur farið rólega af stað en vonir standa til að útfæra þjónustuna á komandi misserum. Hugmyndin á bakvið Heimaspítalann var kynnt við góðar undirtektir á nýsköpunarmóti í nóvember s.l. sem haldið var á vegum Ríkisstjórnar Íslands.

Fleiri ný verkefni hafa farið af stað innan HSU og má þar nefna fjarheilbrigðisþjónustuverkefni sem unnið er í samvinnu við Öryggismiðstöðina. Fjarheilbrigðisþjónustan byggir á norsku kerfi sem hefur verið í notkun víða í Noregi, bæði hjá sveitarfélögum og á spítölum. Um er að ræða heildstætt kerfi þar sem heilbrigðisstarfsfólk getur sinnt fjareftirliti með skjólstæðingum
með ýmsa langvinna sjúkdóma. Með breyttu verklagi geta bæði skjólstæðingar og heilbrigðisstarfsfólk betur fylgst með heilsufari og einkennum hverju sinni og brugðist hratt við með snemmtækri íhlutun ef breytingar verða á heilsufari skjólstæðinga og þannig komið í veg fyrir spítalainnlögn. Lausnin er hönnuð með það fyrir augum að virkja skjólstæðinga og hjálpa þeim við að hafa betri stjórn á sinni eigin heilsu, auka heilsulæsi og hvetja til heilsueflingar. Með þessari vegferð erum við að stuðla að umbótum og nýbreytni í heilbrigðisþjónustu á sama tíma sem það fellur vel að áherslum heilbrigðiráðherra í þessum málum.

Eins og ávallt erum við hjá HSU ólýsanlega þakklát þeim velvilja sem velunnarar sýna stofnuninni með gjöfum og styrkveitingum. Það er ómetanlegt að finna þann hlýhug sem gjöfunum fylgja og verður seint hægt að fullþakka öllum þeim sem leggja stofnuninni lið.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri