6. nóvember 2023
6. nóvember 2023
Forval fyrir hönnun nýs húsnæðis legudeildar - Gert er ráð fyrir 9.200 m2 nýbyggingu.
Nýr Landspítali ohf. (NLSH) hefur óskað eftir umsóknum um þátttökurétt í lokuðu útboði á hönnun nýs húsnæðis legudeildar fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri, ásamt skipulagi lóðar m.t.t. flæði sjúklinga, gesta og aðfanga.
Þetta kemur fram á útboðsvef opinberra útboða. Þar segir ennfremur:
„Verkefnið felur í sér hönnun nýbyggingar ásamt lóðarhönnun og aðkomu að deiliskipulagsbreytingu.
Gert er ráð fyrir að 9.200 m2 nýbygging verði staðsett sunnan við núverandi byggingar á lóð SAk og tengd núverandi húsnæði SAk. Gera má ráð fyrir að núverandi húsnæði verði breytt, til framtíðar, vegna tengingar við nýbyggingu og breytinga á aðkomu. Nýbyggingin mun taka yfir núverandi bílastæði á lóðinni og þarf að færa þau bílastæði til ásamt því að fjölga bílastæðum m.v. aukið byggingarmagn á lóðinni.
Sem hluti af hönnun á legudeildarbyggingu þarf að huga að ytri aðkomu, heildarskipulagi og að nýting bygginga falli að mögulegri framtíðarstækkun. Þetta tekur til sjúklinga, bráðaaðkomu, starfsfólks, gesta og aðfanga. Þá mun verkkaupi einnig láta huga að flæði innan allra bygginga SAK.
Markmið með því útboðsferli, sem hefst með þessu forvali, er að velja hæfan umsækjanda til að taka að sér skipulag heildarsvæðis SAk, hönnun og gerð útboðsgagna fyrir verkefnið Sjúkrahúsið á Akureyri, legudeildarbygging, hönnun.
Að loknu mati á umsóknum um þátttöku verða útboðsgögn afhent 5 hæfustu umsækjendunum í samræmi við kröfur til bjóðenda í forvalsgögnum þessum.
Forvalið er opið öllum hæfum umsækjendum og er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016. Að loknu forvali mun verkkaupi velja fimm (5) fyrirtæki úr hópi hæfra umsækjenda til þátttöku í lokuðu útboði.
Umsækjendum sem hyggjast standa sameiginlega að tilboði er óheimilt að stofna sérstakt fyrirtæki (joint venture) í kringum verkefnið, nema að þeir sem standa að baki fyrirtækinu skuli bera sameiginlega ábyrgð á efndum samningsins. Fleiri fyrirtækjum er heimilt að standa að tilboði eða þátttökutilkynningu sameiginlega, enda teljast þau þá bera sameiginlega ábyrgð á efndum samnings.“