3. nóvember 2023
3. nóvember 2023
Formleg opnun hjúkrunarheimilisins í Stykkishólmi
Í gær fór fram formleg opnun nýja húsnæðisins sem flutt var í um miðjan september s.l.
Forsaga framkvæmdanna er sú að síðan í júlí 2021 hefur Skipavík unnið við umfangsmiklar framkvæmdir á 2. og 3.hæð sjúkrahússins, u.þ.b. 1.200 m2 og það endurgert fyrir 18 íbúa. Herbergin eru björt og glæsileg og þeim fylgja rúmgóð baðherbergi sem uppfylla viðmið um aðbúnað á hjúkrunarheimilum. Tvö þessara rýma verða nýtt fyrir hvíldar- og endurhæfingarinnlagnir með áherslu á endurhæfingu sem er eitt af úrræðunum í þjónustu við aldraða til að fjölga þeim sem geta búið lengur heima. Á heimilinu sem er allt hið glæsilegasta eru borðstofur fyrir íbúana ásamt setustofum, starfsmannaaðstöðu og stoðrýmum. Þá hefur aðkoman og lóðin fyrir framan innganginn að hjúkrunarheimilinu verið endurgerð.
Til formlegu opnunarinnar var boðið tæplega 80 manns en það voru heilbrigðisráðherra og fulltrúar frá heilbrigðisráðuneytinu, framkvæmdastjórn HVE, starfsmenn, aðilar stýrihópsins sem skipaður var í kringum framkvæmdirnar, fulltrúar Stykkishólmsbæjar, fulltrúar Skipavíkur og FSRE ásamt íbúum og aðstandendum.
Forstjóri setti samkomuna og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra flutti ávarp.
Sturla Böðvarsson fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri sem situr í stýrihópnum um endurbætur á húsnæðinu og byggingu hjúkrunarrýmanna í Stykkishólmi flutti ávarp. Hann rakti m.a. sögu heilbrigðisþjónustu í Stykkishólmi og hinn stóra og mikilvæga þátt St. Franciskussystra í heilbrigðis- og mannúðarmálum í svæðinu. Sturla sem situr í stjórn Vináttu og stuðningsfélags St. Franciskusussystra afhenti forstjóra gjafabréf með veglegu fjárframlagi sem nýta á til námskeiðshalds fyrir starfsfólk hjúkrunarheimilisins.
Næst tók til máls Hrefna Frímannsdóttir, umsjónarmaður staðar og yfirsjúkraþjálfari og fór m.a. yfir tímabilið sem framkvæmdirnar stóðu yfir. Hún kynnti einnig niðurstöður könnunar sem gerð var meðal starfsmanna um val á nafni fyrir heimilið sem áður gekk undir nafninu Dvaló. Meirihluti valdi Systraskjól sem verður hið nýja nafn.
Fulltrúar karla í Lionsklúbbi Stykkishóms kváðu sér hljóðs og afhentu Þórný Öldu Baldursdóttur deildarstjóra stórt sjónvarp sem staðsett verður í borðstofu íbúanna á 2. hæð. Þá afhenti stjórn kvenna í Lionsklúbbnum Hörpu heimilinu peningagjöf sem Þórný Alda veitti viðtöku.
Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Stykkishólms flutti ávarp og sagði m.a. frá metnaðarfullum áformum bæjarins um bætta þjónustu við aldraða og miðstöð öldrunarþjónustu sem hefur verði opnuð. Hrafnhildur Hallvarðsdóttir forseti bæjarstjórnar afhendi síðan forstjóra blómaskreytingu frá Stykkishólmsbæ.
Karl Pétur Jónsson, upplýsingastjóri hjá Framkvæmdasýslu-Ríkiseignum (FSRE) ávarpaði samkomuna og greindi frá framvindu verkefnisins sem FSRE hefur umsjón með og greindi frá að samantekt um framkvæmdina í heild sinni verði birt á næstunni. Hjálmar Örn Guðmarsson frá FSRE afhenti síðan forstjóra blómvönd.
Milli ávarpa hlýddu gestir á ljúfan söng þriggja stúlkna úr Tónlistarskóla Stykkishólms.
Að lokinni formlegri dagskrá sem Hulda Gestsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar stýrði þáðu viðstaddir veitingar, gengu um húsnæðið og litu inn í herbergi hjá íbúum sem opnuðu þau fyrir gestum.
Framkvæmdastjórn vill koma á framfæri kæru þakklæti til allra starfsmanna í Stykkishólmi sem komu að undirbúningi, íbúa sem opnuðu herbergin sín fyrir gestum, starfsmanna eldhússins sem sáu um veitingarnar, Tónlistarskóla Stykkishólms og gesta sem tóku til máls.
Stofnunin færir þeim aðilum sem færðu heimilinu höfðinglegar gjafir við þetta tækifæri bestu þakkir fyrir hlýhug og stuðning.