Fara beint í efnið

29. október 2024

Forláta ræðupúlt komið til baka í skóginn

Tveir starfsmenn garðyrkjudeildar Reykjavíkurborgar komu nýverið færandi hendi í starfstöð Lands og skógar á Mógilsá við Kollafjörð. Meðferðis höfðu þau ræðupúlt úr íslensku tré sem smíðað var fyrir deildina á sínum tíma.

Hallgrímur Hallgrímsson, yfirverkstjóri borgarskóga hjá Reykjavíkurborg ásamt starfsystur sinni, Sölku Einarsdóttur, við ræðupúltið góða.

Ræðupúltið smíðaði Ólafur Oddsson fyrir áratugum úr bol af sveru sitkagreni og gaf garðyrkjudeild borgarinnar. Ólafur var fræðslufulltrúi Skógræktarinnar en líka hagleiksmaður og ötull frumkvöðull skógarnáms, hélt reglulega fjölbreytt námskeið um nytjar á viði skógarins. Hann hafði forgöngu um margvísleg efni sem snertu skógarnám og skógarfræðslu og starfaði með skólafólki um allt land og á öllum skólastigum að því að efla útinám og útbúa útikennsluaðstöðu í skógum landsins. Ólafur lést í ársbyrjun 2023.

Vegna skipulagsbreytinga og plássleysis á garðyrkjudeild borgarinnar var ákveðið að gefa ræðupúltið Landi og skógi til baka til varðveislu og minningar um handverk þessa merka frumkvöðuls og baráttumanns. Hallgrímur Hallgrímsson, yfirverkstjóri borgarskóga hjá Reykjavíkurborg, afhenti gripinn ásamt Sölku Einarsdóttur starfsystur sinni. Á meðfylgjandi mynd sem Bjarki Þór Kjartansson tók standa þau við púltið góða.

Land og skógur þakkar góða gjöf og heimsókn.