Fara beint í efnið

20. apríl 2022

Fjórði skammtur COVID-19 bóluefna fyrir 80 ára og eldri

Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að 80 ára og eldri bjóðist fjórði skammtur af bóluefni ef a.m.k. 4 mánuðir eru liðnir frá þriðja skammti.

Sóttvarnalæknir - logo

Vegna áframhaldandi COVID-19 faraldurs og nýtilkominnar reynslu erlendis frá af gagnsemi fjórða skammts fyrir aldraða, sérstaklega 80 ára og eldri, og þá sem einnig hafa sjúkdóma sem auka hættu á alvarlegum COVID-19 veikindum, hefur sóttvarnalæknir ákveðið að 80 ára og eldri bjóðist fjórði skammtur af bóluefni ef a.m.k. 4 mánuðir eru liðnir frá þriðja skammti.

Sama á við um íbúa hjúkrunarheimila, óháð aldri, en mælt er með að ávinningur sé veginn fyrir hvern íbúa eins og fyrr. Hjúkrunarheimili fá bóluefni í gegnum heilsugæsluna.

Mælt er með að nota bóluefni frá Pfizer eða Moderna (þá hálfan skammt) en læknar geta ráðlagt notkun bóluefnis frá Janssen eða Novovax (t.d. vegna ofnæmis) þar sem staðfest er að þau vekja örvunarsvar eftir bólusetningu með öðrum bóluefnum.

Sóttvarnalæknir beinir þeim tilmælum til heilsugæslunnar að skilaboð um bólusetninguna verði send hverjum einstaklingi í þessum tilteknum hópum, auk almennari auglýsinga um hvenær bólusetningar fara fram á hverjum stað.

Aðrir sem fengu þriðja skammt fyrir fjórum mánuðum eða fyrr mega fá fjórða skammtinn ef þeir óska eftir því, en ekki er mælt með því almennt.

Sóttvarnalæknir