Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

29. mars 2008

Þessi frétt er meira en árs gömul

Fjögur fíkniefnamál í Reykjavík

Fjögur fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. Um miðjan dag var rúmlega þrítugur karl og kona, eilítið yngri, handtekin í Háaleitishverfi en á dvalarstað þeirra fundust um 70 grömm af ætluðum fíkniefnum. Talið er að um sé að ræða amfetamín. Fólkið er nú í yfirheyrslu hjá lögreglu.

Hin málin þrjú, sem eru að mestu upplýst, komu upp annars staðar í borginni en í þeim öllum fundust ætluðu fíkniefni í fórum þeirra sem stöðvaðir voru. Talið er að um sé að ræða bæði amfetamín og marijúana en í litlu mæli þó.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður lögreglu í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna.