8. nóvember 2025
8. nóvember 2025
„Fjölbreytni og nærvera sjúklinga heilla í Hveragerði“
Dröfn Hilmarsdóttir er heimilislæknir á heilsugæslunni í Hveragerði. Hún segist alltaf hafa haft breitt áhugasvið innan læknisfræðinnar og var því alltaf opin fyrir heimilislækningum.
Dröfn Hilmarsdóttir, heimilislæknir í Hveragerði
Kandídatsárið tók hún í Svendborg í Danmörku og var því skipt upp í tvennt. Sex mánuði vann hún á bæklunardeild og sex mánuði á heilsugæslustöð.
„Handverkið á bæklunardeildinni þótti mér einstaklega skemmtilegt, eins og að sauma skurði og rétta brotin bein” segir Dröfn og bætir við, „en í heimilislækningum þótti mér fjölbreytnin frábær og góð tilfinning að geta fylgt málum eftir, sem er ekki eins auðvelt í spítalastörfum.”
Í Danmörku bjó Dröfn með manni sínum í tíu ár og eru eldri börnin hennar tvö fædd og uppalin þar. Eftir flutninga heim til Íslands og aftur á heimaslóðir á Selfoss fékk hún starf á lyflækningadeild og bráðamóttöku HSU. Fljótlega bauðst henni að sækja um fyrstu sérnámslæknastöðuna í heimilislækningum á heilsugæslunni í Hveragerði. Eftir það var ekki aftur snúið.
Heimilislækningum fylgir líka pappírsvinna eins og vottorðaskrif, sem Dröfn þykir vera áskorun í starfinu. „Aukin pappírsvinna tekur frá okkur dýrmætan tíma, sem mætti betur fara í læknisfræði,“ segir heimilislæknirinn sem vill heldur eyða tíma á gólfi með sjúklingum sínum í Hveragerði.
„Ég vonast til að starfa í mörg ár í viðbót á heilsugæslunni í Hveragerði. Mér leiðist aldrei í vinnunni,“ segir Dröfn sem segist reglulega sinna einföldu handverki líkt og heillaði hana við bæklunardeildina.