31. ágúst 2023
31. ágúst 2023
Fjarnám gæti stuðlað að tryggri mönnun ljósmæðra við Sjúkrahúsið á Akureyri
Forstjóri SAk hvetur Heilbrigðisvísindadeild Háskóla Íslands að íhuga alvarlega að bjóða aftur upp á fjarnám í ljósmóðurfræði
Norðurlandsdeild ljósmæðrafélags Íslands lýsir yfir miklum áhyggjum af fækkun ljósmæðra í starfstéttinni á landsbyggðinni eftir að Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands lagði niður fjarnám í ljósmóðurfræðum fyrir 15 árum. Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk tekur undir.
Í bréfi sem félagið sendi framkvæmdastjórn SAk til að vekja athygli á stöðunni segir:
„Lengi vel voru tíu ljósmóðurnemar teknir inn í nám í ljósmóðurfræðum ár hvert. Með vaxandi mönnunarvanda og aukinni þörf í heilbrigðiskerfinu hefur fleiri nemum verið boðið pláss síðustu ár en það hefur engu að síður skilað sér að takmörkuðu leyti til landsbyggðarinnar. Með aukinni tækni, betri fjarskiptabúnaði og jafnvel breyttu viðhorfi í kjölfar Covid 19 hefur fjarnám og fjarvinna aukist til muna. Ljósmóðurfræði var síðast kennd í fjarnámi fyrir um 15 árum síðan sem leiddi til þess að talsverður fjöldi ljósmæðra hófu störf á sínu heimasvæði að námi loknu. Ljósmæður á SAk telja algjörlega nauðsynlegt að fjarnám verði sett á laggirnar á nýjan leik til að stuðla að aukinni endurnýjun og fjölgun ljósmæðra á landsbyggðinni.
Á fæðingardeild SAk eru starfandi 20 ljósmæður en að undanförnu hafa veikindi aukist þar sem mikið álag er á deildinni. Þá er þónokkuð um langtímaveikindi og á næstu fimm árum mun góður hópur ná eftirlaunaaldri. Stærstur hluti starfandi ljósmæðra á deildinni er á aldrinum 45 – 55 ára og er sérstök athygli vakin á því að við 55 ára aldur geta ljósmæður óskað eftir að hætta á næturvöktum.
„Á fæðingardeildinni á Akureyri fæðast árlega um 400 börn og upptökusvæðið spannar 45 þúsund manns. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að aðgangur að fæðingardeild er lykilatriði að halda byggð í landinu og ekki getum við endalaust sent fæðandi konur á höfuðborgarsvæðið með þeim kostnaði og áhættu sem það felur í sér. Ég get því ekki annað en tekið heilshugar undir áhyggjur Norðurlandsdeild ljósmæðrafélags Íslands að það verði fundin lausn á því hvernig mennta megi fleiri ljósmæður með nútímalegum hætti,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk.