6. mars 2024
6. mars 2024
Ferðast um með „ferðaskrifstofuna“ á bakinu
Á Evrópudegi talþjálfunar: Ingunn Högnadóttir er talmeinafræðingur við SAk
Í dag er Evrópudagur talþjálfunar og er deginum ætlað að vekja athygli á fjölbreyttum störfum talmeinafræðinga. Ingunn Högnadóttir er starfandi talmeinafræðingur við SAk: „Þó ég sé ein er ég langt í frá einmanna, þökk sé frábæru samstarfsfólki.“
Ingunn tekur virkan þátt í þverfaglegri teymisvinnu á endurhæfingar- og öldrunardeild, auk þess að sitja í næringarteymi SAk. Þess utan er hún í öflugu og góðu samstarfi við hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, geislafræðinga, lækna, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, matartækna og fleira starfsfólk á hinum ýmsu deildum sjúkrahússins. „Mér er mikið í mun að eiga gott samstarf og teymisvinna er grundvöllur þess að veita skjólstæðingum sem besta þjónustu,“ segir Ingunn.
Talmeinafræðingar vinna við greiningu og íhlutun á mál- og talmeinum, auk kyngingvanda. Tal, mál og kynging er mikilvægur þáttur í lífi fólks og mikilvægur fyrir líkamlega og sálfélagslega heilsu okkar. Þema Evrópudags talþjálfunar þetta árið er teymisvinna, þar sem vakin er athygli á mikilvægri samvinnu talmeinafræðinga við aðrar fagstéttir, hvort heldur sem er innan skólakerfisins, heilbrigðiskerfisins eða annars staðar í samfélaginu.
„Ég hef aðsetur á Kristnesi en ósjaldan má sjá mig trítla um ganga í Eyrarlandsholtinu með „ferðaskrifstofuna“ mína á bakinu. Þá er ég í óðaönn að sinna beiðnum frá ólíkum deildum sjúkrahússins,“ segir Ingunn.
Sem dæmi um störf Ingunnar má nefna greiningu og meðferð á málstoli eða kyngingarvanda eftir heilablóðfall, röntgenrannsóknir á kyngingu, þjálfun í óhefðbundnum tjáskiptaleiðum o.fl. „Ráðgjöf er stór þáttur í starfi talmeinafræðings og góð samskipti við aðrar fagstéttir, aðstandendur og skjólstæðinga því einkar mikilvæg,“ segir Ingunn að lokum.
Við óskum öllum talmeinafræðingum til hamingju með daginn!
Frekari upplýsingar um störf talmeinafræðinga er að finna á heimasíðu Félags talmeinafræðinga á Íslandi www.talmein.is.
Nafn: Ingunn Högnadóttir.
Starfsheiti: Talmeinafræðingur.
Fæðingarár: 1982.
Hvaðan ertu: Úr sveit.
Menntun: Talmeinafræði MSc frá Háskóla Íslands.
Hversu lengi hefurðu unnið á SAk: Ég fluttist af Grensásdeildinni norður á Kristnes fyrir næstum 8 árum síðan.
Áhugamál: Líkams- og hugarrækt, útivist, ferðalög, fjölskyldan, góðar bækur, blóm og plönturæktun, almennt stúss, bras og framkvæmdir.
Hvað varstu í fyrra lífi: Það er bara eitt líf - njótum þess.
Sturluð staðreynd: Ég er talmeinafræðingur fyrir algjöra tilviljun. Ég var að fylla út umsókn um meistaranám í tungutækni (nú máltækni) þegar ég rak augun í „talmeinafræði” í næstu línu fyrir ofan og ákvað að kynna mér það.
Hvernig lítur hefðbundinn vinnudagur út hjá þér á SAk: Égmæti á Kristnes – fæ mér kaffibolla og athuga hvort bíði mín nýjar beiðnir. Svo tekur við talþjálfun á Kristnesi fyrir hádegi - og yfirleitt einhver greining, ráðgjöf, rannsóknir eða eftirfylgd á Eyrarlandsholtinu eftir hádegi.
Hvað er skemmtilegast í vinnunni: Þegar vel gengur að hjálpa fólki og bæta lífsgæði þess - og svo auðvitað samstarfsfólkið og teymisvinnan!