2. desember 2025
2. desember 2025
Farsældarráð Norðurlands vestra stofnað
Farsældarráð Norðurlands vestra var formlega stofnað síðastliðinn fimmtudag, 27. nóvember, við undirritun samstarfssamnings og samstarfsyfirlýsingar í Krúttinu á Blönduósi.

Með ráðinu hefst markvisst og samræmt samstarf sveitarfélaga og helstu stofnana sem veita þjónustu við börn og fjölskyldur á svæðinu. Ráðið verður vettvangur sameiginlegrar stefnumótunar í samræmi við lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Sveitarfélög og stofnanir sameina krafta sína
Sveitarfélögin Húnaþing vestra, Húnabyggð, Skagaströnd og Skagafjörður undirrituðu samning um sameiginlega ábyrgð á farsældarráðinu. Jafnframt var undirrituð samstarfsyfirlýsing með þjónustuaðilum og stofnunum á svæðinu, þar á meðal Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Lögregluembætti Norðurlands vestra, Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, svæðisstöðvum íþróttahéraða og kirkjunni á Norðurlandi vestra. Óstofnað ungmennaráð Norðurlands vestra mun einnig eiga fulltrúa í ráðinu.
HVE með fulltrúa við undirritun
Liljana Milenkoska, yfirhjúkrunarfræðingur heilsugæslunnar á Hvammstanga, undirritaði samstarfsyfirlýsinguna fyrir hönd Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.
Fyrsti fundur á nýju ári
Farsældarráðið mun halda sinn fyrsta fund á nýju ári og hefja þá vinnu við gerð fjögurra ára aðgerðaáætlunar fyrir Norðurland vestra.