21. mars 2024
21. mars 2024
Fagráðstefnu skógræktar lokið á alþjóðlegum degi skóga
Mikil ánægja var meðal þátttakenda á Fagráðstefnu skógræktar sem lauk í Hofi á Akureyri í dag, á alþjóðlegum degi skóga. Hvatningarverðlaun skógræktar voru veitt í fyrsta sinn á ráðstefnunni og fyrstur til að hljóta verðlaunin var Sigurður Arnarson fyrir pistla sína um tré og skóga.
Alls sóttu um 140 manns Fagráðstefnu skógræktar að þessu sinni og þótti hún takast mjög vel í alla staði, erindin fróðleg og fjölbreytt, ekki síst um þema ráðstefnunnar sem var skógarauðlindin - innviðir og skipulag. Ráðstefnan var tekin upp og má horfa á hana í heild á Youtube-rás Lands og skógar.
Hvatningarverðlaun skógræktar
Á fyrri degi ráðstefnunnar voru Hvatningarverðlaun skógræktar afhent í fyrsta sinn. Ragnhildur Freysteinsdóttir hjá Skógræktarfélagi Íslands ahenti Sigurði Arnarsyni verðlaunin, sem hann hlaut fyrir fróðleg og fjölbreytt skrif sín um skóga og skógrækt á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Verðlaunin voru viðurkenningarskjal, skál úr hafnfirskri gráösp og alaskasýpris sem ræktaður var í Sólskógum af fræi af slíku tré í Kjarnaskógi. Efnt hafði verið til almennrar kosningar um hver skyldi hljóta verðlaunin eftir að dómnefnd hafði valið þrjár tilnefningar til verðlaunanna af tugum tillagna sem bárust. Auk Sigurðar voru tilnefnd Waldorf-skólinn í Lækjarbotnum fyrir samþættingu skógræktar við skólastarf og Steinar Björgvinsson og Árni Þórólfsson fyrir fræðslu og uppbyggingu útivistarskóga.
Ákveðið var að verðlaunin skyldu afhent í samhengi við alþjóðlegan dag skóga sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað árið 2012 að skyldi vera 21. mars á hverju ári Deginum er ætlað að vekja athygli á og meðvitund um mikilvægi skóglendis af öllum gerðum. Hverju sinni eru löndin hvött til að taka þátt í og skipuleggja viðburði, bæði heima við og alþjóðlega, þar sem sjónum er beint að skógum og trjám, svo sem með því að skipuleggja gróðursetningarviðburði. Afhending Hvatningaverðlauna skógræktar er slíkur viðburður. Þema alþjóðlegs dags skóga 2024 er Skógar og nýsköpun." Myndband dagsins er gefið út á nokkrum tungumálum og með þýðingartexta á enn fleiri tungumálum, þar á meðal íslensku.
Hvatningarverðlaun skógræktar eru samstarfsverkefni Skógræktarfélags Íslands, Bændasamtakanna og Lands og skógar. Nánar í Bændablaðinu.
Gleðilegan alþjóðlegan dag skóga!