Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

13. mars 2015

Þessi frétt er meira en árs gömul

Færri tilkynningar um þjófnaði ekki borist síðan í desember 2007

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir febrúar mánuð 2015 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 561 tilkynning um hegningarlagabrot í febrúar. Það sem af er ári hefur lögreglu borist álíka margar tilkynningar um hegningarlagabrot og á sama tímabili á síðasta ári. Tilkynnt var um 259 þjófnaði í febrúar, en lögreglu hefur ekki borist eins fáar tilkynningar í einum mánuði síðan í desember 2007. Einungis tvisvar áður hafa færri þjófnaðir verið tilkynntir í einum mánuði frá því samræmdar skráningar hófust. Fjöldi ofbeldisbrota í febrúar er svipaður og verið hefur síðastliðna þrjá mánuði. Það sem af er ári hefur þó ofbeldisbrotum fjölgað um 15 prósent miðað við meðalfjölda brota síðastliðinna þriggja ára. Skýrist það að hluta til af fjölgun tilkynninga um heimilisofbeldi en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu breytti verklagi sínu í þessum málum við upphaf þessa ár.