9. október 2025
9. október 2025
Erindi á stærstu hjartaráðstefnu heims
Ársþing evrópsku hjartalæknasamtakanna (European Society of Cardiology – ESC Congress) fór fram í Madrid dagana 29. ágúst til 1. september 2025. Ráðstefnan er stærsta samkoma hjartalækna í heiminum og sóttu hana að þessu sinni rúmlega 33.000 þátttakendur. Tvö erindi frá Gunnari Þór Gunnarssyni hjartalækni á Sjúkrahúsinu á Akureyri og samstarfsfólki voru flutt á ráðstefnunni.

Oddný Brattberg Gunnarsdóttir, sérnámslæknir í lyflækningum, flutti erindið „The Icelandic hypertrophic cardiomyopathy project: a recall-by-genotype study on MYBPC3 founder mutation carriers. Echocardiographic data and B-type natriuretic peptide measurement“. Erindið er hluti af doktorsverkefni hennar sem snýr að rannsóknum á ofvaxtarhjartavöðvakvilla (OHK) á Íslandi, þar sem arfberar stökkbreytingar sem valda sjúkdómnum eru sérstaklega skoðaðar. Rannsóknin er doktorsverkefni Oddnýjar við HÍ sem leitt er af Berglind Aðalsteinsdóttur á Landspítala í samstarfi við Gunnar Þór á SAk, Davíð O. Arnar Landspítala í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu. Rannsóknarverkefnið er framhald doktorsverkefnis Berglindar sem Gunnar Þór stýrði á sínum tíma. Erindið var flutt á málstofunni „Advancing care in hypertrophic cardiomyopathy“ sem stýrt var af tveimur af fremstu sérfræðingum heims á þessu sviði, þeim Caroline Coats frá Glasgow og Michelle Michels frá Rotterdam.
Oddný flutti einnig erindið „The white heart – myocardial calcification after soft tissue infection with streptococcus pyogenes and multi-organ failure. As seen by four different cardiac imaging modalities”. Meðhöfundar erindisins auk Gunnars Þórs og Oddnýjar voru Björn Flygenring og Ævar Örn Úlfarsson hjartalæknir á LSH. Þar var sagt frá afar sjaldgæfu tilfelli á SAk þar sem kölkun í hjartavöðva greindist eftir alvarlega streptókokkasýkingu og fjöllíffærabilun. Einungis örfáum slíkum tilfellum hefur verið lýst. Erindið var hluti af málstofunni „Challenges in heart failure: multimodality imaging“.
Auk framlagsins á ráðstefnunni nýttu læknarnir tækifærið til að funda með samstarfsfólki og meðrannsakendum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, og afla sér nýrrar þekkingar og tengsla á sínu sérsviði.