7. október 2025
7. október 2025
Endursendingar umsækjenda um vernd byggja á gagnkvæmu trausti
Ekkert bendir til þess að umsækjendur um vernd fái ekki vandaða og efnislega málsmeðferð í Króatíu

Umsóknir um alþjóðlega vernd fá að meginreglu ekki efnislega meðferð á Íslandi, ef fyrir liggur að annað ríki beri ábyrgð á þeim og hafi samþykkt endurviðtöku umsækjendanna. Þetta ákvæði í lögum um útlendinga leiðir af því að Ísland og önnur aðildarríki svokallaðs Dyflinnarsamstarfs hafa sammælst um að umsækjendur um alþjóðlega vernd skuli ekki eiga sjálfval um í hvaða landi umsókn þeirra um alþjóðlega vernd er afgreidd. Samkomulagið byggir á gagnkvæmu trausti ríkjanna á því að umsóknir fái réttláta málsmeðferð í hverju og einu aðildarríki, með öðrum orðum að einstaklingar og fjölskyldur sem eigi rétt á vernd, samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum þar að lútandi, fái vernd í því ríki sem ber ábyrgð á umsókninni.
Áður en íslensk stjórnvöld taka ákvörðun um að senda umsækjendur um vernd til baka til viðtökuríkis fer þó fram rannsókn á einstaklingsbundnum aðstæðum þeirra sem og á þeim aðstæðunum sem bíða þeirra í viðtökuríkinu. Rannsóknin er gerð með tilliti til þess hvort tryggt sé að umsækjendunum muni standi til boða öll nauðsynleg grunnþjónusta í viðtökuríkinu, verði þeim gert að snúa þangað aftur, og hvort þeir geti leitað til þarlendra yfirvalda ef þeir telja brotið á sér með einhverjum hætti.
Við rannsókn máls rússneskrar fjölskyldu sem fjallað hefur verið um í fréttum að undanförnu, kom ekkert fram sem bendir til þess að umsækjendur um vernd fái ekki vandaða og efnislega málsmeðferð í Króatíu. Á meðan mál eru til meðferðar hjá þarlendum stjórnvöldum eiga umsækjendur til að mynda rétt á allri grunnþjónustu, svo sem húsnæði, mataraðstoð, framfærslu og grunnheilbrigðisþjónustu. Börnum umsækjenda um vernd er jafnframt tryggður réttur til menntunar og aðgangur að heilbrigðisþjónustu, þar með talið ungbarnavernd.
Engin gögn benda til þess að slíkur kerfisbundinn galli sé á aðbúnaði og meðferð umsækjenda um vernd í Króatíu að þeir standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta þar ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að yfirvöld í Króatíu veiti umsækjendum ekki þá vernd sem er áskilin í alþjóðlegum skuldbindingum á sviði mannréttinda, þar á meðal reglunni um bann við því að vísa fólki brott þangað sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu.
Í ljósi þessarar niðurstöðu og að teknu tilliti til ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnaverndarlaga og útlendingalaga, var það jafnframt niðurstaða stjórnvalda að hagsmunum barna þeirra væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Króatíu. Kærunefnd útlendingmála staðfesti þetta mat Útlendingastofnunar í tveimur úrskurðum.
Vakin er athygli á því að á vef stjórnarráðsins má finna úrskurði kærunefndar útlendingmála og lesa ítarlegan rökstuðning í þeim málum sem koma á borð nefndarinnar.